Herranótt (eða Hera Nótt eins og Herranæturstjórn kallar þetta afkvæmi sitt) Menntaskólans í Reykjavík frumsýndi í gærkvöldi sína útgáfu af söngleiknum/kvikmyndinni Með allt á hreinu í Gamla bíó undir stjórn Völu Fannell. Ég tek fram undir eins að ég sá ekki frumsýninguna, því miður, heldur aðalæfingu kvöldið áður og eins og allir vita er aðalæfing og frumsýning tvennt ólíkt: á æfingunni skortir yfirleitt spennuna óviðjafnanlegu sem ríkir frumsýningarkvöldið.

Það vantaði samt ekkert upp á spennuna, að því er séð varð, á þriðjudagskvöldið. Hópurinn stóri sem fyllti sviðið í Gamla bíó af iðandi lífi dansaði, söng og lék af innlifun. Það vantaði kannski stundum upp á agann en leikgleðin var hjartanleg og smitandi.

Söguþráðinn þekkir hvert íslenskt mannsbarn. Stinni Stuð (Ólafur Jökull) og Harpa Sjöfn (Kristín Þóris) eru par en þau eru líka forsöngvarar hvort í sinni hljómsveitinni, Stinni stýrir Stuðmönnum en Harpa Sjöfn kvennahljómsveitinni Gærunum. Þau hafa skipulagt saman tónleikaferð á landsbyggðinni þar sem Gærurnar eiga að vera – að mati Gæranna – hálfgerð viðhengi við Stuðmenn, eins konar aukanúmer. Þegar forsprökkunum sinnast klofnar hópurinn í tvennt, Gærurnar fá sér umboðsmann, hina skeleggu Heklu (Thea Snæfríður), og leggja land undir hjól um leið og strákarnir. Á ferðalaginu gengur á ýmsu, aðsóknin að skemmtununum er misgóð og hóparnir skiptast á að gera hvor öðrum meinlega hrekki. Þegar Gærurnar hrekkja Stuðmenn í síðasta sinn fer þó svo að Harpa Sjöfn verður sárreið félögum sínum – þau Stinni höfðu sæst kvöldið áður en nú veit hún ekki hvað verður …

Það er öflugur hópur sem leikur hljómsveitarmeðlimina. Ólafur Jökull er bráðfyndin útgáfa af Agli Ólafssyni í hlutverki Stinna Proppé, útlimalangur og hjólliðugur, fullur af sjálfum sér en einlægt krútt inn við beinið. Kristín er flott Harpa Sjöfn en gerir ekkert til að minna sérstaklega á Ragnhildi Gísladóttur enda ólík týpa. Hún er jafnvel markvissari fyrirliði í sinni hljómsveit en Ólafur Jökull, eins og henni sé meiri alvara – enda er meiri baráttuhugur í Gærunum og söngatriðin þeirra voru jafnvel flottari en Stuðmanna. Júlía Guðrún, Melkorka Mjöll og Áshildur Margrét eru skínandi góðar í hlutverkum hljómsveitarkvennanna og Thea Snæfríður er sannkallaður herforingi í hlutverki umbans.

Stuðmenn höfðu úr meira að moða sem einstaklingar, Ólafur Jökull auðvitað en ekki síður Ólafur Björgúlfs sem var alveg dásamleg útgáfa af Frímanni. Ég vona sannarlega að Jakob Frímann Magnússon sjái þessa sýningu! Úlfur Tulinius var öðruvísi pínlegur Dúddi en Eggert Þorleifsson en gerði vel, Kristján Nói var fínn Lars og Alexía K.M. óvæntur en bráðskemmtilegur Hafþór sem hitti barnsmóður sína (Katrín Ásgeirs) og sveinbarnið Hörð (Jórunn Ósk) eins og frægt varð. Stór hópur dansara og söngvara tekur þátt í hópatriðum en ekki má skilja við leikaralistann án þess að nefna Emblu Mýrdal sérstaklega, hún verður lengi minnisstæð í hlutverki Flos… ég meina Sigurjóns digra.

Hugmyndin að Með allt á hreinu er geysiskemmtileg en ekki hefðu vinsældir kvikmyndarinnar orðið svona langæjar ef ekki kæmi til öll tónlistin. Lög Stuðmanna og Grýlanna eru löngu orðin klassík og það var óskaplega gaman að upplifa þau í túlkun þessara fjölhæfu ungmenna. Þar mætti vel telja upp öll lögin í réttri röð en ég læt mér duga þau sem skemmtu mér best: Íslenskir karlmenn, Ekkert mál, Haustið ´75, Slá í gegn, Sísí …

Leikstjórnin virtist þéttari framan af, til dæmis var þá nokkrum sinnum beitt því bráðskemmtilega bragði að frysta þau sem ekki voru í hlutverki á sviðinu meðan hin léku eða töluðu saman. Stundum var beitt samþjöppun með því að flétta saman tvö atriði (eða jafnvel fleiri?), það tókst alveg prýðilega. Mörg hópatriðin voru virkilega vel heppnuð, til dæmis kringum hið sígilda Franskar (sósa og salat?). Það er alveg óhætt að lofa aðdáendum kvikmyndar Ágústs Guðmundssonar góðri skemmtun í Gamla bíó!

 

Silja Aðalsteinsdóttir