RokkÉg fór að sjá nýjasta Hugleikinn í gærkvöldi í nýju húsnæði þess ágæta áhugamannaleikfélags úti í Örfirisey, Rokk. Það var alveg þreföld ánægja. Í fyrsta lagi að þessi yndislegi hópur skuli vera kominn með “eigið” húsnæði (þó að stólarnir séu ekki góðir við gömul bök og rassa), í öðru lagi að ný kynslóð skuli vera tekin við kyndlinum (að minnsta kosti í þessari sýningu) og í þriðja lagi að það skyldi vera alveg eins gaman og ævinlega áður.

Við erum stödd í frumstæðu æfingahúsnæði þar sem fjórir strákar ætla að stíga sín fyrstu skref til alheimsfrægðar. Fyrir þeim fer Steini söngvari (Jón Svavar Jósefsson), geysilega kraftmikill strákur og fantasöngvari sem tekst með léttum leik að láta mann trúa á væntingarnar með sér. En félagar hans, Hreinn bassaleikari (Hjalti Stefán Kristjánsson), Grímur gítarleikari (Guðmundur Stefán Þorvaldsson) og Boggi trommari (Baldur Ragnarsson), eru sáróánægðir með hvað leigan er há hjá systkinunum skuggalegu (en stórskemmtilegu) Jens Leó (Flosi Þorgeirsson) og Gunnþórunni (Guðrún Eysteinsdóttir). Þess vegna ákveða þeir að deila húsnæðinu og leigunni með nýstofnuðu stelpubandi – og eins og þið getið gert ykkur í hugarlund gengur á ýmsu í samskiptum listamannahópanna tveggja. Fyrir stelpubandinu fer söngkonan Ragna (Elísabeth Lind Ingólfsdóttir) sem ekki er minni orkusprengja en Steini þó orkan hennar sé lengi vel neikvæðari en hans. Einkum er henni uppsigað við nýju stúlkuna í hópnum, fiðluleikarann Snæfríði (Guðrún Sóley Sigurðardóttir), en hinar stelpurnar, Lóa trommari (Hildur Halldórsdóttir), Védís bassi (Ösp Kristjánsdóttir) og Bogga á hljómborðinu (Helga Ragnarsdóttir) vinna ötullega að því að sætta Rögnu við viðbótina og skapa einingu í bandinu.

Leikararnir lifðu sig fallega inn í rullurnar sínar – enda kannski ekki fjarri þeim sjálfum. Þó að þau séu öll einlæg og fín í hlutverkum sínum eru sumir alltaf jafnari en aðrir.  Jón Svavar er lærður óperusöngvari en það þvældist ekkert fyrir honum, hann var rokkari af lífi og sál og gaf sterka mynd af sinni persónu. Elísabeth Lind var fín Ragna og syngur vel, Ösp skapaði ansi skemmtilega, hlýlega og sannfærandi persónu úr Védísi sem er pínulítið treg en fjarska góð sál, og Guðrún Sóley var öflug Snæfríður. Mikla kátínu vakti Flosi líka í hlutverki Jens Leó, popparans eilífa sem hefur marga fjöruna sopið með mörgum hljómsveitum úr hliðskipuðum veruleika, eins og ein persónan bendir á.

Það var margt gleðilegt við þessa sýningu fyrir utan hvað hún var ung og aðlaðandi. Textinn var kannski ekki djúpur eða margræður en virkilega fyndinn og hugkvæmur. Hann eiga fjórmenningarnir Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam, Sigurður H. Pálsson og Þórarinn Stefánsson. Söngtextar sömu höfunda auk Eggerts Hilmarssonar heyrðust ekki alltaf alveg nógu vel en það sem ég heyrði fannst mér bráðgott. Leikstjóranum Þorgeiri Tryggvasyni tókst annars afar vel við að þjálfa lítt reynt fólkið sitt í framsögn, enda mátti heyra á mæli nokkurra að þeir koma frá skýrmæltum svæðum landsins. Hópurinn á vel skilinn þann heiður að fá að leika í Þjóðleikhúsinu í sumar sem besti áhugahópurinn þennan leikhúsvetur og ég skora á áhugamenn um leikhús og músík að fjölmenna á hana. Og takið krakkana með!

Silja Aðalsteinsdóttir