Það er skammt stórra högga á milli á íslensku óperusviði því í gær var í fyrsta sinn flutt í Reykjavík ný barnaópera eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson. Hún heitir Baldursbrá og segir sögu af háskalegu ævintýri blóms sem þó endar vel. Óperan var frumflutt á Siglufirði á þjóðlagahátíð fyrr í mánuðinum undir stjórn tónskáldsins sem einnig stjórnaði í gærkvöldi. Þetta var konsertuppfærsla en Sveinn Einarsson aðstoðaði við sviðsetningu.

BaldursbráSagan er í hæsta máta óraunsæ enda ævintýri. Fuglinn Spói (Eyjólfur Eyjólfsson) sannfærir blómið Baldursbrá (Fjóla Nikulásdóttir) um að hún þurfi endilega að komast upp á ásinn til að sjá sólarlagið betur en hún gerir í lautinni sinni góðu þar sem hún er annars svo óendanlega sæl. Nú eru blóm föst á rót sinni þannig að Baldursbrá hvorki hleypur né flýgur með honum upp á ásinn en Spói fær Rebba (Jón Svavar Jósefsson) til að stinga upp hnausinn hennar Baldursbrár með klónum og bera hana síðan (væntanlega í kjaftinum?) upp á fjall. Sælan verður skammvinn því þarna uppi er lélegur jarðvegur, ekkert vatn og nístingskalt á næturnar þannig að Spói verður dauðhræddur um líf Baldursbrár. Hann fer aftur af stað í leit að Rebba til að fá hann til að flytja Baldursbrá aftur heim en á meðan hann er í þeim leiðangri kemur Hrútur (Davíð Ólafsson) og ætlar að gæða sér á blóminu. Þegar til kemur hefur hann ekki lyst á því og hrækir því frá sér en það veit Spói ekki þegar hann kemur til baka og finnur ekki Baldursbrá. Hann syngur sorgarsöng en gleðst við þegar Baldursbrá svarar honum neðan úr gjótu.

Lögin hans Gunnsteins eru dillandi skemmtileg, mjög söngvæn og draga vel fram fyndnina og fjörið í texta Böðvars. Persónur eru skýrar og hafa hver sinn úthugsaða karakter, bæði í texta og tónum. Skemmtilegasta persónan er Rebbi og hann kemur ekki einn því hann á átta yrðlinga sem eru sannkallaðir gleðigjafar á sviðinu. Þetta eru ungviði sem eru að „komast til refs“, eins og pabbi þeirra segir, og læra að veiða sér til matar. Um þetta syngja þau algerlega tæpitungulaust frábæra texta. Þau eru ekkert ánægð þegar þeim er bæði bannað að veiða spóann og hrútinn en báðir eru vinir Rebba og því friðaðir.

Söngvararnir voru hver öðrum betri. Eyjólfur hefur afar fallega og hljómmikla tenórrödd og kemur bæði texta og tilfinningum vel til skila. Fjóla hefur yndislega sópranrödd en hljómsveitin yfirgnæfði stundum textann hennar. Ég átti líka bágt með að ná textanum hjá Davíð en hann túlkaði Hrút ágætlega með sínum djúpa bassa. Barítónrödd Jóns Svavars kom textanum langbest til skila og hann er líka afskaplega  skemmtilegur leikari. Þar naut hann barnahópsins sem hlýddi hverri hans bendingu og söng skýrt og fallega. Sögumaður í þessari uppfærslu var Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sem gegndi sínu hlutverki með stakri prýði.

Ef marka má viðtökurnar í Langholtskirkju í gærkvöldi er full ástæða til að setja óperuna á svið. Best af öllu væri þó að búa til teiknimynd utan um hana, þá nyti ævintýrið sín vel.

Silja Aðalsteinsdóttir