Ég játa að ég fylgist með framhaldsþáttunum Dirty Sexy Money í Sjónvarpi allra landsmanna. Þetta er hárbeitt háð um fólkið sem mörg okkar öfunda, ríkasta fólkið í hinum vestræna heimi, sorgir þess og gleði – aðallega sorgir náttúrlega – vel skrifaðir og ágætlega leiknir, sambærilegir að ýmsu leyti við þá dásamlegu grínþætti Aðþrengdar eiginkonur. Þarna er sofið hjá í kross og keng, hjónabönd eru bundin og slitin, börn eru vanrækt og svikin þrátt fyrir eilíf loforð um hið gagnstæða. Eina reglan í heimi þessa fólks er sú að í ást og bisniss gildi engar reglur, þar sé hver maður sinnar gæfu smiður. En ekki kunna menn þar að smíða gæfu og þá ekki að halda henni við.

FjölskyldanEiginmaður minn og góður aðstoðarmaður við leikhúspistla þessa á tmm.is heldur því fram að leikritið Fjölskyldan eftir Tracy Letts sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöldið sé af sama tagi og Dirty Sexy Money, blanda af háði og einlægni með heimilisógæfur heimsfrægu bandarísku fjölskylduleikritanna að efniviði. Þarna gerist allt sem á að gerast – enda tekur sýningin fjóra klukkutíma. Við fáum dauðsfall, framhjáhald af margvíslegu tagi, barnagirnd, systkinaástir og þó fyrst og fremst takmarkalausa óhamingju. Og samt – samt er að lokum eins og ekkert hafi gerst. Afstaða höfundar til þessa fólks er svo íronísk að manni stendur í raun og veru á sama um það en hefur samt áhuga á því, aðallega af því hvað það er ósvífið.

Og manni leiðist ekki Fjölskyldan, ekki frekar en sjónvarpsþættirnir. Hér segja margar persónur ákaflega margt og oft skemmtilega. Svo er sviðið einstaklega ásjálegt. Það er eftir snillinginn Börk Jónsson sem að þessu sinni útfærir sviðsmyndina úr Kommúnunni og byggir heilt þriggja hæða hús á sviðinu. Á gólfhæðinni er eldhús, stofur og inngangur, uppi eru svefnherbergin og eitt meira að segja uppi á hanabjálka.

Leikritið hefst á því að heimilisfaðirinn Beverly Weston (Pétur Einarsson) ræður unga vinnukonu til starfa í húsinu, indíánastúlkuna Johönnu (Unnur Ösp Stefánsdóttir) sem er helsti fulltrúi einlægni í verkinu. Beverly felur henni búsforráð, því húsfreyja, Violet Weston (Margrét Helga Jóhannsdóttir), er sjúklingur. Síðan hverfur Beverly af vettvangi og kemur ekki aftur. Flosi hefði sagt að þetta hlutverk væri eins og sniðið fyrir sig. En aðrir aðstandendur flykkjast að til að hlynna að Violet gömlu, systirin Mattie (Hanna María Karlsdóttir) og dæturnar þrjár. Barbara er elst (Sigrún Edda Björnsdóttir) og kemur með eiginmann (Ellert A. Ingimundarson) og dótturina Jean á fermingaraldri (Guðrún Bjarnadóttir). Ivy (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) kemur ein enda einhleyp og hallærisleg kennslukona. En gellan Karen (Nína Dögg Filippusdóttir) kemur með nýjasta kærastann, Steve (Rúnar Freyr Gíslason). Með Mattie er eiginmaðurinn Charlie (Theodór Júlíusson) og seinna bætist sonur þeirra litli Charlie í hópinn (Hallgrímur Ólafsson). Og þá vantar bara lögguna í þessa upptalningu, gamla kærastann hennar Barböru sem Þröstur Leó Gunnarsson lék.

Það kemur snemma í ljós að í þessu húsi hefur óhamingjan átt fasta bækistöð afar lengi. Ástæðan er sígild; kerlingin er skass og karlinn er gauð. Violet hefur ríkt yfir þessu mikla húsi öllum til ama og leiðinda og nú er hún orðin svo leið á sjálfri sér að hún er að drepa sig á pilluáti. Margrét Helga lék þessa kerlingu af list, og íronía verksins kom ekki síst í ljós hjá henni. Hún er svo dópuð framan af að hún getur ekki gert sig almennilega skiljanlega. Það var drepfyndið, og hún var líka fyndin þegar rann af henni. Langæfð rifrildi móðurinnar og elstu dótturinnar voru mikil skemmtun, og raunar allur endemis vandræðagangurinn á Barböru sem þráir svo að vera pottþétt og smart kona en er nú endanlega að flæma veslings eiginmanninn frá sér og jafnvel dótturina líka. Það eina sem Barbara kann er að vera eins og mamma. Mattie hefur líka verið undir hælnum á systur sinni og kúgar í staðinn eiginmann og son sem hún er reyndar virkilega vond við. Þar er önnur einlæg persóna, en Charlie eldri er frábær blanda af hvoru tveggja, háði og einlægni.

Hilmir Snær Guðnason er fínn leikstjóri. Sérstaklega lætur honum vel að stýra leikurum og það er virkilega gaman að fylgjast með liðinu hans, ég nefni bara Theodór og Jóhönnu Vigdísi í viðbót við Margréti Helgu og Sigrúnu Eddu. Sumt annað tókst ekki eins vel. Atriði vildu týnast í þessu stóra húsi, einkum á miðhæðinni, það var eins og lýsingin brygðist þar stundum. En atriðin sem gerðust í nýju hjarta hússins á háaloftinu tókust afar vel. Oft heyrðist illa tal fólks aftur á sextánda bekk, einkum þegar leið á hina löngu og smám saman langdregnu sýningu. Mér þótti tónlist KK hæfa verkinu illa. En búningar Margrétar Einarsdóttur voru ágætir.

Það þarf ekki að hvetja fólk til að sjá þessa sýningu því hálf þjóðin er búin að kaupa miða á hana. En það er ástæða til að hvetja fólk til að búast ekki við O’Neill eða Tennessee Williams heldur horfa á Fjölskylduna eins og Dirty Sexy Money.

Silja Aðalsteinsdóttir