HúsmóðirinVesturport fylgir eftir Evrópsku leiklistarverðlaununum sem þau fengu fyrr í þessum mánuði með frumsýningu á Húsmóðurinni, farsakenndum gamanleik sem er sýndur á Nýja sviði Borgarleikhússins. Salnum er alveg umbylt af þessu tilefni. Nærri salarbreitt sviðið er þar sem sæti áhorfenda eru venjulega og þaðan gengur pallur út og klýfur áhorfendasvæðið snyrtilega í tvennt. Á sviðinu eru þrjú herbergi – eða réttara sagt sama herbergið þrisvar sinnum og er hvert þeirra búið dæmigerðum húsgögnum fyrir ákveðið tímabil: sjötta áratuginn, áttunda áratuginn og loks samtímann. Sviðið er sköpunarverk Ilmar Stefánsdóttur og ber henni fagurt vitni.

Í sýningunni kynnumst við íbúum hússins á þessari hálfu öld sem verkið spannar. Heimilisfaðirinn á sjötta áratugnum, Bessi (Björn Hlynur Haraldsson), og kona hans Guðný (Nína Dögg Filippusdóttir) byggðu húsið og kölluðu það Bessastaði. Þau hjón eru góðir fulltrúar síns tíma, ákaflega proper og föst í forminu og frúin býr við hávaðalaust ofríki bónda síns. Þau eiga eina dóttur, Halldóru (Nína Dögg líka), sem er fyrir sitt leyti dæmigerð hippahúsmóðir á næsta tímaskeiði. Eiginmaður hennar, Helgi, er síðhærður hippi (Gísli Örn Garðarsson) og þau eiga eina dóttur, Guðnýju yngri (Nína Dögg enn), sem er húsmóðir, eiginkona Klemens (Víkingur Kristjánsson) og móðir fermingarbarns árið 2011.

Og hvað breytist þá á þessum tíma sem líður annað en tíska í fötum, fylgihlutum og húsbúnaði? Kannski lagði hópurinn upp með línur í þeim efnum en það losnaði fljótlega um þær. Enda hefur þetta fólk takmarkaðan áhuga á hversdagslegum veruleika. Það sem drífur sýninguna áfram er leikgleðin; leikurunum, sem líka eru höfundar og leikstjórar sýningarinnar, finnst greinilega ógeðslega gaman að flippa fyrir framan fullan sal af kátum áhorfendum. Og flippa er nákvæmlega það sem þau gera.

Ég hef áður fullyrt að ekkert hafi löngum þótt fyndnara en að klæða hreppsnefndina í kvenmannskjóla, og það er satt að segja alveg óborganlegt að sjá þá í kvenfötum Gísla Örn, Björn Hlyn og Víking – auk Jóhannesar Níelsar Sigurðssonar sem leikur Guðrúnu systur húsmóðurinnar á fyrsta tímabili og býr á Bessastöðum öll þessi fimmtíu ár. Þau skemmta sér (og okkur) undurvel við að skipta um búinga og persónur á svo skömmum tíma að það jaðrar við galdra, fara á tímaflakk og róta upp í heilabúum áhorfenda sem hafa ekki við að setja ný nöfn á sömu leikarana. Undir leikur Pálmi Sigurhjartarson af mikilli list og óvæntur músíkant olli mér nærri því hjartastoppi undir lokin. Áhorfendur sitja við borð í salnum og mega hafa drykki með sér inn og það var ekki laust við árshátíðarstemningu í húsinu um það er lauk.

Að listrænum metnaði og fegurð jafnast Húsmóðirin ekki á við meistarastykki Vesturports, sýningar eins og Rómeó og Júlíu og Hamskiptin. En það er hressandi að sjá að þessir frábæru listamenn skuli líka geta brugðið fyrir sig farsaleik og notið þess í botn. Hláturinn lengir nefnilega lífið.

 

Silja Aðalsteinsdóttir