Tveir fátækir pólskumælandi RúmenarÞað var frekar tónlistin en nafnið sem gerði að ég tengdi Tvo fátæka pólskumælandi Rúmena strax við bíómyndir Emirs Kusturica, til dæmis Svartan kött hvítan kött. En það var ekki svo galið, því sú tenging sendi mig rakleiðis inn í réttan heim fyrir þetta tryllta leikverk eftir pólska leikskáldið Dorotu Maslowsku sem nú er sýnt á Norðurpólnum undir stjórn Heiðars Sumarliðasonar. Tónlistarstjórnin er í höndum Gunnars Karels Mássonar sem hefur valið vel.

Við vitum ekki hvað fór á undan, við hittum bara í byrjun manninn (Árni Pétur Guðjónsson) sem tekur nauðugur upp í bíl sinn afar einkennilegt par, illa klætt og illa tennt og hátt uppi eftir mikið svall (Hannes Óli Ágústsson og Magnea Björk Valdimarsdóttir). Hann verður afar ósáttur við þau enda finnst honum þau hafa í hótunum við sig, en svo fer að honum tekst að losna við þau úr bílnum með því að aka beinlínis á lögreglubíl og þvinga lögregluna þannig til að hjálpa sér. Hvernig honum tekst að komast út úr því veseni sjálfum fáum við ekki botn í af því að við fylgjum parinu áfram í æ æðisgengnari tilraunum þeirra til að komast til Varsjár.

En það er sama hvern þau hitta, veslings vegavilltu greyin, allir eru í hæsta máta undarlegir. Ekki fá þau lánaðan síma á kaffihúsi sem þau rekast inn á því afgreiðslustúlkunni finnst þau afar tortryggileg (Vigdís Másdóttir). Þau verða fegin þegar kona tekur þau upp í bíl sinn (Aðalbjörg Árnadóttir) en ennþá fegnari þegar þau sleppa út úr bílnum hennar aftur! Þau verða óskaplega fegin þegar þau sjá ljóstýru framundan þar sem þau labba eftir eyðilegum vegi gegnum skóginn en ekki ná þau heldur að hvílast þar og slappa af fyrir íbúa hússins (Hjörtur Jóhann Jónsson).

Þetta er glettilega vel gert verk á köflum, einkum meðan við erum að átta okkur á því að hér er ekkert sem sýnist. Allir búa í haginn fyrir sig og hirða þá ekkert um hvað er satt og hvað ekki. En ég missti  sambandið við verkið undir lokin. Einhver þyrfti að segja mér hvað Dorota er að hugsa þar.

Leikurinn var í stíl við efnið og þar fóru fremst Hannes Óli og Aðalbjörg, en Árni Pétur var líka traustur í hrædda karlhróinu. Annars var tilfinningin svolítið áleitin að það vantaði herslumun á að leikararnir hvíldu þægilega í rullunum sínum. Þurftu þau meiri tíma?

 

Silja Aðalsteinsdóttir