LóniðFrumsýningargestir Tjarnarbíós í gærkvöldi gengu inn í gufubað. Salargólfið var fljótandi í volgu vatni sem persónurnar, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Jökull Smári Jakobsson og Melkorka Gunborg Briansdóttir, böðuðu fætur sína í, skvettu hvert á annað og sulluðu svolítið. Enda heitir verkið Lónið og vísar til þess að nú er enginn staður á landinu eftirtektarverður eða heimsóknar virði nema þar sé baðstaður, helst óvenjulegur og frumlegur. Þar á að vera allt sem við þráum, slökun, vellíðan og lífsfylling. Verkið er eftir Magnús Thorlacius sem einnig leikstýrir en tónlist og hljóðmynd gerði Ísidór Jökull Bjarnason, myndböndin eru eftir Hákon Örn Helgason og Nikulás Tuma Hlynsson og Ragnhildur Birta Ásmundsdóttir stýrði sviðshreyfingum og aðstoðaði Magnús við leikstjórnina.

Magnús rannsakar í Lóninu samskipti fólks í samtímanum og leikur sér að tungumálinu. Hann sýnir með ágætum dæmum hvað tal fólks getur verið gersneytt innihaldi þó að orðin séu vandlega valin bókleg spariorð, hvað jafnvel langar ræður geta verið merkingarlausar ef þær vantar harðan kjarna þekkingar og skoðana sem byggjast á henni. Raunar virtust merkingarbærustu „samtölin“ vera þau sem héldu sig við einföldustu orðin, til dæmis langa samtalið þar sem ekkert var sagt nema ha og nei en í ótal tóntegundum og með merkilega fjölbreyttum áherslum!

En þrátt fyrir ýmisleg samskipti persónanna þriggja sem við fylgjumst með á sviðinu er greinilegt að þær plagar einsemd og þær verða smám saman óttalega umkomulausar þarna í vatnspollinum sínum, langt frá vellíðaninni og lífsfyllingunni sem þær þrá. Magnús Thorlacius er ekki bjartsýnn á tilvist mannsins í samfélagi okkar en leikararnir hans fóru vel með efnið.

 

Silja Aðalsteinsdóttir