Gunni ÞórðarLandnámssetrið í Borgarnesi er merkilegt fyrirbæri í íslensku þjóðlífi. Fyrir utan fróðlegar sýningar um landnám Íslands og Egil Skallagrímsson hafa forráðamenn þess greinilega sett sér að endurvekja frásagnarlistina. Uppi í risi þess hafa nú þúsundir Íslendinga og gesta þeirra notið þess að hlýða á sagnalist af ýmsu tagi, og þá fyrst og fremst sýninga þeirra Benedikts Erlingssonar á Mr. Skallagrímsson og Brynhildar Guðjónsdóttur á Brák, sem báðar eru sagnalist í sérflokki. Ósanngjarnt væri að bera kvöldstund með Gunnari Þórðarsyni, sem ég upplifði í gær, við þær ofannefndu. Þó að hann hafi lifað langa og viðburðaríka ævi er hann ekki sagnamaður á við Benedikt og Brynhildi. En hann hefur tónlistina sem gestir hans þekkja og elska, og það er ekki síst hún sem gerir stundina með honum athyglisverða og skemmtilega. Auk þess er einstakt að fá að upplifa þessa lifandi goðsögn í örfárra metra fjarlægð í röska tvo tíma (með hléi).

Á þessum tveim tímum segir Gunnar okkur ævisögu sína með áherslu á feril sinn sem tónlistarmaður. Hann skautar hratt yfir fyrstu árin á Hólmavík (þar sem hann fæddist árið 1945 þó að hann nefni það ekki sérstaklega) en hægir svolítið á sér þegar hann flyst til Keflavíkur átta ára gamall. Þá voru miklir fólksflutningar á suðvesturhornið því atvinnuleysi var víða um land en Kaninn kominn aftur á Miðnesheiði. Feður okkar Gunnars beggja voru meðal þeirra fjölmörgu sem fengu vinnu þar og við komum um svipað leyti “suður”. Það færðist hiti í frásögn Gunnars þegar hann sagði frá tónlistaruppeldi sínu í Keflavík og dæmin sem hann tók af vinsælum lögum frá sjötta áratugnum voru frábær upprifjun. Reyndar hefði verið gaman að fá nokkur slík dæmi áfram til að setja Hljómalögin í þjóðlegt og alþjóðlegt samhengi.

Hljómasagan og saga næstu hljómsveita sem Gunnar var í varð svolítið vélræn hjá honum, eins og hann væri búinn að segja þá sögu of oft til að hafa verulega gaman af henni. Ekki komst góður hiti í frásögnina aftur fyrr en hann var kominn til Bandaríkjanna undir 1980, útbrunninn af of mikilli vinnu og óreglu, óhamingjusamur og fráskilinn (hann hafði ekki sagt okkur frá þeirri konu eða nefnt áður að hann hefði gift sig), og hitti konu sem hann heillaðist af. Ekki fengum við að vita hvort hún væri íslensk eða bandarísk (kannski vita það allir nema ég?) en við fengum að vita – og heyra af lögunum hans í framhaldinu – að hún hafði fært honum mikla gæfu. Ég held að Gunnar eigi að vera óragur við að gefa svolítið meira af sér en hann gerði í gær. Því sem hann gaf var innilega tekið og af skilningi. Við erum öll samferðamenn hans og viljum fá að taka svolítið meiri þátt í lífi hans en hann leyfði okkur á sýningunni í gær. Við munum ekki misnota þann trúnað.

Best var auðvitað að rifja upp lögin, það örlitla brot af tónverkum Gunnars sem komst fyrir á þessari samverustund. Langflest lögin þekkti ég en iðulega hafði ég ekki hugmynd um að þau væru eftir Gunnar. Fyrir þá sem eru nálægt Gunnari í aldri er þetta yndisleg ferð niður Minningastíg, fyrir þá yngri er þetta íslensk poppsaga síðustu fjörutíu ára, sögð af þeim sem var með allan tímann, bæði sem aðal- og aukaleikari. Það þarf áreiðanlega ekki að hvetja fólk til að fara upp í Borgarnes til að hitta Gunnar. Sjálfsagt gefst hann upp á aðdáendum sínum áður en þeir gefast upp á honum. Og ég segi bara: Góða skemmtun.

 

Silja Aðalsteinsdóttir