Grettis sagaÞetta var Borgarneshelgin mikla og væri hægt að fjölyrða um hve glæsilega staðurinn tók sig út í björtu góuveðrinu. Í gær og í dag var ég í einkar ánægjulegum æfingabúðum með kórnum mínum, Senjórítunum, á Hótel Borgarnesi (kom raddlaus til baka), en áður en að þeim kom fórum við hjónin í Landnámssetrið á föstudagskvöldið og hlýddum á Einar Kárason segja Grettis sögu á Söguloftinu. Það var jafnvel ennþá ánægjulegra.

Fyrirbærið Söguloft er einstakt á heimsvísu, það þori ég að fullyrða, og starfsemin þar blómstrar, sem betur fer. Vilborg Davíðsdóttir hefur undanfarna mánuði sagt einhverjum þúsundum gesta sögu Auðar djúpúðgu og nú tekur Einar við með fornkappann hugumstóra og ógæfusama. Það er býsna langt síðan ég las Grettlu en atriði úr henni sitja þó föst í minninu: ódæli drengurinn sem hrekkti pabba sinn og merina hans, bardaginn við Glám – og kvæði Matthíasar Jochumssonar spratt fram í hugann við frásögn Einars af honum –, sundið úr Drangey (og samskiptin við griðkonu og bóndadóttur) og svo endalokin. En þá er enn eftir æðimikil saga og margt kom á óvart í frásögn Einars, miklu fleira, satt að segja, en ég hefði ímyndað mér. Og það var ótrúlega góð skemmtun að rifja söguna upp með honum og þróttmikil rödd hans hæfir sögunni og söguhetjunni afburðavel.

Það sem Einar gerir best er hvernig hann tekur söguna saman, þjappar henni þannig að hún rúmist á tveim tímum og hvernig hann – um leið og hann styttir – túlkar hana og opnar hana fyrir manni án þess að fara nokkurn tíma offari í skýringum. Þar hefur hann einkum það þrennt í huga sem vinur hans og átrúnaðargoð Sturla lögmaður Þórðarson sagði um Gretti: Hann var vitrastur sekra manna á Íslandi af því að hann var þeirra lengst í sekt og varð ekki unninn meðan hann var heill; hann var sterkastur sinna jafnaldra á landinu og lagði meira til að koma af afturgöngum og reimleikum en aðrir menn og loks að hans var hefnt suður í Miklagarði en svo frægur varð enginn annar Íslendingur.

Til marks um gáfur Grettis fengum við til dæmis snilldarsögur af kænsku hans í skiptum við illvirkja og bófa – og þær voru oft um leið sögur af manngæsku hans. Við þessa áherslu varð ógæfa Grettis eftir álög Gláms ennþá nöturlegri og andstæðurnar milli gæfu og gjörvileika átakanlega skýrar. Þó var frásögnin oft beinlínis fyndin enda orðheppni Grettluhöfundar við brugðið. Maður á kannski ekki von á að veltast um af hlátri á slíkri sögustund en sú varð samt raunin. Um leið og ég hvet söguelskandi almenning til að flykkjast á Söguloftið bið ég þess einlæglega að fólk taki með sér stálpuð börn og unglinga. Enginn sér eftir því.

-Silja Aðalsteinsdóttir