Ég lifi enn - Sönn sagaLeikverkið Ég lifi enn – sönn saga var frumsýnt í Tjarnarbíó í gærkvöldi. Höfundar eru Þórey Sigþórsdóttir, Ásdís Skúladóttir og Rebekka A. Ingimundardóttir sem einnig er listrænn stjórnandi og leikstýrir ásamt Ásdísi. Juliette Louste annaðist bæði hreyfingar leikaranna og ljósahönnun, Hulda Dröfn Atladóttir sá um búninga en Hlín Agnarsdóttir var dramatúrg sýningarinnar.

Þjóðirnar eru að eldast, það sjáum við allt í kringum okkur. Og allir vilja lifa lengi en enginn vill verða gamall, það er þversögnin. Um dauðann má helst ekki tala. Það var alltaf vitað að við yrðum mörg, segir kona 3 (Ásdís Skúladóttir) undir lok sýningar. Hún er af stríðsárakynslóðinni (eins og ég), þeirri fjölmennustu sem þá hafði fæðst í landinu. En stjórnvöld virðast ekkert hafa hugsað út í það, alltént var fjarri því nóg gert til að búa samfélagið undir sprenginguna þegar þessi stóri hópur færi af vinnumarkaði og á ellilaun með tilheyrandi hrörnun. Því fór sem fór, samfélagið er illa undir það búið að hlynna að öllum sem verða gamlir og heilsulausir, fólki finnst það afskipt og hunsað og það fyllist eðlilega gremju. Aðstandendum gamla fólksins gremst líka og verkið er byggt á persónulegri reynslu höfunda og leikhópsins af öldrun sinna nánustu.

Ég lifi enn

Sýningin hefst á öðrum hátindi kvöldsins. Kona 1 (Anna Kristín Arngrímsdóttir) er komin með elliglöp, hún veit að hún er til – hún veit bara ekki hver hún er. Anna Kristín fór afar vel með hlutverkið og sló tóninn fyrir kvöldið. Með henni á sviðinu eru þrjár glæsilegar konur, systir 1 (Halldóra Rósa Björnsdóttir), systir 2 (Ingibjörg Gréta Gísladóttir) og systir 3 (Þórey Sigþórsdóttir); þær taka við og fylgja okkur allt til loka og eru þá ýmist starfsmenn á stofnunum eða aðstandendur vistmanna, allar eins búnar, formlegar og virðulegar. Inn í skýrslukenndan texta þeirra koma aðilar að utan með frásagnir, hugvekjur og fjör, Árni Pétur Guðjónsson (hann sá aðallega um fjörið eins og honum er svo vel lagið), Sæmi Rokk Pálsson, Helga Elínborg Jónsdóttir og Jón Hjartarson. Atriði Jóns var hinn hátindur sýningarinnar. Hann fór með texta úr rúmlega tvö þúsund ára gömlu riti, De Senectute eða Um ellina eftir Cíceró sem reynist vera alveg eins kórréttur og beinskeyttur í dag og árið 44 f.Kr.! Ég man vel hvað manni þótti fáránlegt að þýða úr þessu verki í menntaskóla, enda ellin langt undan á þeim dögum.

Ég lifi enn - Sönn saga

Það var líka áhrifaríkt þegar stór hópur svartklæddra öldunga sló hring um sviðið, gekk hringinn í kringum það, kallandi sífellt sömu setningarnar og minnti svo á sig áfram við ýmis tækifæri. Þarna var Breiðfirðingakórinn kominn og lék gráa herinn af innlifun. Það virðist raunar vera vakning í leikhúsunum varðandi leikara af eldri kynslóðinni því bráðum fáum við að sjá fjölda þeirra sameinast í Marat/Sade á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Ég lifi enn er þörf sýning og vekjandi og fór geysilega vel í troðfullt Tjarnarbíó í gærkvöldi, enda geta flestir tengt sig við efnið á einhvern hátt. Ekki kom ég þó auga á neinn ráðamann í áhorfendahópnum, en auðvitað sá ég ekki alla.

 

Silja Aðalsteinsdóttir