Deleríum búbónisLeikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gærkvöldi af margföldu tilefni sjötugan söngleik þeirra bræðra og snillinga Jóns Múla og Jónasar Árnasona, Deleríum búbónis. Bergur Þór Ingólfsson lagaði verkið að nýjum tíma og leikstýrir sýningunni eins og fer ekki framhjá neinum. Þar er skörp kímnigáfa hans við stjórn, glöggt auga hans fyrir tímasetningum og óbrigðult næmi hans á hvað leikararnir hans geta – til dæmis í söng, dansi, fimleikum og almennu sprelli. Með sér hefur hann líka hljómsveit sem stendur sína plikt með prýði undir stjórn Agnars Más Magnússonar, Unni Elísabetu Gunnarsdóttur sem semur dansana og hreyfingarnar fyrir sprellið, Gunnar Hildimar Halldórsson sem sýndi alltaf með lýsingunni hvert hann vildi að maður horfði og Stefaníu Adolfsdóttur sem hannaði búningana og missti sig alveg dásamlega í að klæða þær Guðrúnu og Pálínu Ægis. Hvílík kjóla-orgía! Leikmynd Heimis Sverrissonar var óvænt en kunnugleg þeim sem fæddir eru um miðja síðustu öld: Við vorum sem sé stödd í Iðnó og horfðum á það sem gerist uppi á sviðinu!

Þegar tjaldið fer frá er verið að æfa á sviðinu ballettinn „Djáknann á Myrká“. Frú Pálínu Ægis (Esther Talía Casey), eiginkonu Ægis Ó. Ægis viðskiptajöfurs (Halldór Gylfason), er mikið í mun að stimpla sig inn í menningar- og listakreðsa borgarinnar, og hún hefur fengið mann sinn til að kosta uppfærslu á ballettinum sem dóttir hennar, Guðrún Ægis (Ásthildur Úa Sigurðardóttir) dansar aðalhlutverkið í. Ægi finnst nóg fé komið í þá hít og vill slútta styrkveitingum enda er hann taugaóstyrkur þessa desemberdaga. Hann á stóra ávaxta- og jólatrjáasendingu niðri á höfn en það er einhver töf á afgreiðslu og loks kemur upp úr kafinu að með skipinu er líka hættuleg veira, „deleríum búbonis“, utan úr Evrópu þannig að það þarf að sótthreinsa skipið með ærnum kostnaði og frekari töfum. Jafnvægismálaráðherrann (Valur Freyr Einarsson) er með Ægi Ó. í bisnissnum og þegar allt er komið i eindaga leggur hann fram frumvarp á þingi um að jólunum skuli frestað um óákveðinn tíma! Ef það gengur ekki neyðast þeir til að taka höfuðfjandann Einar í Einiberjarunni (Björn Stefánsson) með í púkkið og það væri hryllilegt.

En meðan á þessu gengur í heimi viðskiptanna skemmtir Guðrún sér dægilega við að draga tvo ástfangna pilta á asnaeyrunum, Leif Róberts tónskáld (Sigurður Þór Óskarsson) og atómskáldið Unndór Andmar, ritstjóra tímaritsins Vitrings (Haraldur Ari Stefánsson). Mamma hennar vill endilega að hún kjósi Unndór sem hefur ítök í listaheiminum en einhvern veginn er Guðrún samt veikari fyrir ólíkindatólinu Leifi sem er ekkert heilagt og getur sálgað manni úr hlátri með hnitmiðuðum athugasemdum sínum og gysi. Til aðstoðar við sviðsetninguna á ballettinum er Sigga sviðsmaður (Sólveig Guðmundsdóttir) sem reynist ekki öll þar sem hún er séð, og hið sama má segja um bílstjórann Gunnar Hámundarson (Vilhelm Neto) sem á bílnúmerið sem frú Pálínu dreymir um: R9.

Texti þessa gamla verks er hunang, svo orðauðugur er hann, fallegur og snjall. Söngtextarnir sem við kunnum flesta eru svo vel ortir að það er enginn vandi að læra þá, þeir renna alveg náttúrulega. Bergur hefur fjölgað lögum í leiknum, bætt við lögum úr Rjúkandi ráði, Allra meina bót og Járnhausnum en víða snúið upp á textana til að laga þá að nýjum söguþræði, oft mjög skemmtilega. Það var gríðarlega gaman að heyra Siggu sviðsmann syngja Við heimtum aukavinnu og dans hennar, Gunnars bílstjóra og Leifs við lagið var sprenghlægilegur. Raunar er sýningin ein gleðisprengja frá upphafi til enda, hröð, þétt, hnökralaus, sprúðlandi fyndin og fersk þótt frumefnið sé komið á eftirlaunaaldur. Ekki eru tennurnar heldur dregnar úr samfélagsgagnrýni verksins, við hlæjum okkur máttlaus að ræðu jafnvægismálaráðherrans og ráðabruggi bissnisskarlanna um leið og við muldrum í barminn: þetta hefur EKKERT breyst.

Söngurinn var jafn og áheyrilegur og leikurinn var öruggur í þessum mikla hraða, þar kunnu öll á sína kómík. Halldór Gylfason var einhvern veginn stærri og breiðari en hann er vanur í sínu hlutverki, Haraldur Ari var tilgerðin uppmáluð í gervi atómskáldsins, Esther Talía stórglæsileg Pálína sem sópaði að, Sólveig hafði sig lengst af lítt í frammi en átti nokkur frábær útspil, Valur Freyr hafði kveikt á karismanum á fullu, enda ætlaði hann að dáleiða þingsal, Vilhelm Neto verður ógleymanlegur Gunnar bílstjóri („mælirinn gengur!“), Björn var flærðin sjálf í glæsilegum jakkafötum (ég hefði alveg viljað hafa hans hlutverk stærra…), Ásthildur Úa tælandi fögur en um leið einlæg, saklaus og ung.

Rúsínan í pylsuendanum er svo Sigurður Þór sem lék á als oddi í hlutverki Leifs, söng af öryggi og list þessi undursamlegu lög, lék sér að því að heilla salinn með hárbeittum textaflutningi og lét okkur skæla af hlátri með skringilátum sínum. Ég veit ekki hvernig hann fer að því að velta svona um sviðið án þess að hálsbrjóta sig – ég veit að ég gæti það ekki – en það var eins og hann væri beinlaus, maðurinn! (Svo stekkur hann hæð sína í öllum herklæðum eins og sést á myndinni!)

Þetta er dásamlegt verk og Bergur Þór sýnir fram á að það var ómaksins vert að dusta af því rykið. Sýningin frá 1959 (sem ég sá með pabba og mömmu) var sýnd 150 sinnum. Ég spái þessari sömu tölu – að minnsta kosti.

 

Silja Aðalsteinsdóttir