Glanni glæpur, önnur þekktasta persóna Latabæjarsjónvarpsþátta Magnúsar Scheving,  þreytist seint á að ergja sig á fólki sem stundar íþróttir og borðar hollan mat. Maður hefði kannski haldið að hann lærði eitthvað á síendurteknum misheppnuðum tilraunum sínum til að fá íbúa Latabæjar ofan af þessu en – nei. Hann er enn að og nú (aftur) á stóra sviði Þjóðleikhússins. Nýja verkið heitir Ævintýri í Latabæ og það eru höfundurinn og Rúnar Freyr Gíslason sem stýra því.

Ævintýri í LatabæFlest er kunnuglegt við söguþráðinn: Krakkarnir í Latabæ eru rosalega dugleg að hreyfa sig og borða íþróttanammi. Þetta ergir Glanna glæp (Stefán Karl Stefánsson) sem reynir enn að hugsa upp ráð til að venja þau af þessum góðu siðum. Óvænt innslag er að hann fær til liðs við sig þrjá fína skemmtikrafta (Arnmundur E. Backman, Oddur Júlíusson og Þórir Sæmundsson) sem hann heldur að séu skemmikraftar (hann er kannski ekki vel læs) og með þeirra hjálp tekst honum að veiða sjálfan íþróttaálfinn (Dýri Kristjánsson) í gildru, ryðja Baldri bæjarstjóra úr vegi (Hannes Óli Ágústsson) og taka sjálfur stjórnina í Latabæ. Samt lætur fólkið þar sér ekki segjast og hann þarf enn meiri aðstoð, nú frá Hreyfilöggunni (Róbert Kristmannsson), vélhundi hans (Brynjar Dagur Albertsson) og liðsmannafjöld til að handsama Baldur, Stínu símalínu (Svandís Dóra Einarsdóttir) og öll börnin. Það getur nú varla verið gaman að vera bæjarstjóri í bæ þar sem allir íbúarnir eru í fangelsi en Glanni lætur sér vel líka. Þá kemur til kasta áhorfenda í sal sem hjálpa íþróttaálfinum að losna úr sinni prísund og þegar hann er laus er endirinn í sjónmáli.

Þetta er rosalega flott sýning og eiginlega sambland af sviðssýningu og kvikmynd (teiknimynd), svo mikið af atburðarásinni gerist á tjaldi (leikmyndin er skrifuð á Verkstæðið ehf og Emil Pétursson en María Th. Ólafsdóttir gerir búninga). Sérstaklega fannst mér glæsilegt þegar loftfar íþróttaálfsins kemur svífandi á kvikmynd en stöðvast svo í áþreifanlegu formi fyrir ofan sviðið og niður streymir álfurinn á kaðli. Frábærlega var líka sett saman kvikmynd og sviðsleikur þegar álfurinn er á leið yfir fjöllin, svífur þar í slow motion í loftinu og lendir svo lifandi framan við tjaldið (vonandi reynir ekkert barn að leika þetta eftir). Tónlist Mána Svavarssonar er óminnisstæð en söngurinn lýtalaus og dansatriði (Stella Rósenkranz) sömuleiðis fagmannleg en mörg nokkuð erobikk-leg fyrir minn smekk. Skemmtilegastur fannst mér dans nemendanna í dansskólanum sem vildu ekki leyfa Sollu stirðu (Melkorka Davíðsdóttir Pitt) að dansa með sér. Leikurinn var eins og annað í sýningunni nokkuð keyrður áfram á teiknimyndahraða, en algerlega áfallalaus og börnin með Sollu í broddi fylkingar vel þjálfuð og heillandi. Sjarmatröllið er Gunnar Hrafn Kristjánsson í hlutverki Sigga sæta. Hallgrímur Ólafsson var alger andstæða hans sem Nenni níski og náði að verða verulega pirrandi. Rán Ragnarsdóttir og Jónmundur Grétarsson voru líka góð í hlutverkum Höllu hrekkjusvíns og Gogga mega.

Eiginlega fékk ég nýja sýn á Glanna glæp og þráhyggju hans þegar ég las pistil Guðmundar Andra í Fréttablaði dagsins í dag. Ég hef aldrei „skilið“ þráhyggju Glanna. Af hverju í ósköpunum skyldi nokkur manneskja hafa á móti því að fólk hreyfði sig og borðaði grænmeti og ávexti en vildi að það sæti sljótt heima í sófa, borðaði nammi og glápti á sjónvarp? En nú þegar yfirvöld hafa hækkað skatta á hollustu (og bókum) en lækkað þá á sykri og sjónvörpum þá er greinilegt að „skemmikraftar“ Glanna glæps eru líka virkir í raunveruleikanum. Kannski tekst þeim betur til en Glanna veslingnum í Latabæ.

Silja Aðalsteinsdóttir