MátulegirLeikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gærkvöldi á Nýja sviði Borgarleikhússins leikritið Mátulegir sem Thomas Vinterberg samdi upp úr eigin kvikmyndahandriti ásamt Claus Flygare. Þórdís Gísladóttir þýðir prýðilega. Leikstjóri er sjálfur leikhússtjórinn, Brynhildur Guðjónsdóttir, helst til flókna leikmynd gerir Heimir Sverrisson, Filippía Elísdóttir sá um búninga, Þórður Orri Pétursson um lýsingu en Ísidór Jökull Bjarnason um tónlist og hljóðmynd. Heilmikið er gert úr hreyfingum leikaranna í sýningunni, enda eru persónur þeirra drukknar talsverðan hluta hennar og þar kom Anna Kolfinna Kuran sterk inn.

Allir lesendur mínir vita áreiðanlega út á hvað þetta verk gengur, svo vinsæl hefur Óskarsverðlaunamyndin Druk verið í bíó hér á landi auk þess sem hún var nýlega sýnd í sjónvarpinu. En samkvæmt þeirri gömlu reglu að aldrei eigi að ganga út frá fyrirframþekkingu skal sagt að Nikolaj, sálfræðikennari við danskan menntaskóla (Jörundur Ragnarsson) hefur lesið sér til um merka kenningu norsks geðlæknis sem heldur því fram að mannskepnan hafi ekki nægilegt áfengismagn í blóðinu frá náttúrunnar hendi. En ef við bætum úr því skipulega verðum við glaðari, hressari og betur í stakk búin að mæta lífinu. Þetta segir hann þrem samkennurum sínum, Tommy leikfimikennara (Halldór Gylfason), Martin sögukennara (Hilmir Snær Guðnason) og Pétri tónlistarkennara (Þorsteinn Bachmann) og þeir taka upplýsingunum  fagnandi. Þeir eru mislangt komnir að því að brenna út í kennslunni og ákveða að láta reyna á kenninguna. Allt í einu verða þeir djarfir og fyndnir í tímum og þó að einhverjir nemendur klagi þá í foreldra sína virðist allt lengi vel ætla að ganga að óskum.

Ég ímynda mér að það væri erfitt fyrir íslenska menntaskólakennara að halda sér uppi á áfengi alla virka daga vetrarins vegna þess hvað áfengi er dýrt hér á landi miðað við kennaralaun en eftir reynslu dönsku kolleganna er það kannski ekki heldur ákjósanlegt. Heimilislíf tveggja fer í vitleysu, að minnsta kosti í bili, og sá veikasti í hópnum verður undir. Sá eini sem ekki er fjölskyldumaður fær hins vegar loksins kjark til að ná sér í konu svo að ekki er allt bölvað. Enda sé ég í leikskránni að það var alls ekki hugmynd Thomasar Vinterberg að níða niður áfengið, „upprunalega hugmyndin á bak við Druk hafi einfaldlega verið að fagna áfengi og því frelsi og léttleika sem það gæti fært.“ En áfengi er vímuefni og við þolum ekki öll neyslu þess, allra síst stöðugt til langs tíma.

Það er alveg greinilegt að leikararnir fjórir hafa geysimikla skemmtun af starfi sínu. Þeir fá að sprella og dansa, slaga og detta á hausinn, æpa og syngja, faðma hver annan og gráta svolítið. Þeir fá að sýna karlmenn opna á tilfinningar sínar og veita hver öðrum styrk og hlýju. Þeir leika líka hlutverkin af innlifun og gleði og ekki á neinn hallað þó að Halldóri Gylfasyni sé hrósað sérstaklega, enda reyndi að ýmsu leyti mest á hann í sýningunni – fyrir utan auðvitað lokaatriðið þar sem Hilmir Snær gladdi mig mjög!

Mátulegir

Ég efast ekki um að margir munu koma til að sjá þessa vinsælu leikara leika listir sínar, en ég verð samt að viðurkenna að ég skil ekki þetta verkefnaval. Sýningin er bein endurgerð á kvikmyndinni, þar verður ekki vart við sérstaka túlkun leikstjórans eða úrvinnslu sem merkja mætti henni. Kannski er valið svar við verki Caryl Churchill Ein komst undan fyrir ári, þar voru fjögur kvenhlutverk en enginn karl, hér heyrum við í einni konu í síma en hún er ekki nafngreind í leikskrá. Það er sannarlega enginn skortur á fínum hlutverkum fyrir karla á besta aldri í leikbókmenntun heimsins, hefði ekki verið nær að velja eitthvað óvæntara og meira spennandi?

 

Silja Aðalsteinsdóttir