Leikhópurinn Miðnætti, sem færði okkur hina eftirminnilegu brúðusýningu Á eigin fótum í Tjarnarbíó fyrir fáeinum misserum, frumsýndi í gær sýninguna Geim-mér-ei í Kúlu Þjóðleikhússins. Þetta er brúðusýning þar sem japönsku bunraku-brúðutækninni er beitt eins og í Á eigin fótum. Brúðu- og leikmyndarhönnuðurinn er Eva Björg Harðardóttir, tónlistin er eftir Sigrúnu Harðardóttur og flutt af henni sjálfri á sviðinu, Kjartan Darri Kristjánsson er ljósahönnuður en höfundur ásamt leikhópnum og leikstjóri er Agnes Wild.

Vala er stelpuhnokki með ljósar fléttur og í rauðum smekkbuxum. Hún þarf að hafa ofan af fyrir sér sjálf af því að foreldrar hennar (Nick Candy og Þorleifur Einarsson) eru mjög uppteknir í símunum sínum. En Vala á dálitla eldflaug sem hún kallar Appolló og með hennar hjálp kallar hún til sín rosalega flott geimfar sem lendir í garðinum hennar og ber hana svo langt út í geim. Þar kynnist hún geimverunni Fúm sem er lítið annað en eitt auga með mikinn hárlubba og þau Vala verða bestu vinir. Saman heimsækja þau reikistjörnu þar sem búa sérkennilegar gormlaga fígúrur og það liggur við átökum þegar þær komast yfir Appolló en sem betur fer sigrar samkenndin og kærleikurinn. Þegar Vala og Fúm skilja í lokin gefur hún honum blómið gleym-mér-ei en Fúm misskilur nafnið á blóminu og þaðan kemur titill verksins. Annars er lítill beinn texti í sýningunni en þeim mun meira af alls kyns hljóðum sem vandalaust er að skilja, hvaða tungumál sem maður talar.

Sviðið er einfalt í grunninn en geimfarið er mjög spennandi og gefur möguleika á alls konar leikbrögðum. Til dæmis var ekki lítið skemmtilegt að sjá Völu lenda í þyngdarleysi í geimfarinu, svífa í loftinu eins og fugl. En mannshöfuð er alltaf nokkuð þungt og þegar áhrifin dvínuðu steyptist Vala greyið á hausinn. Áhrifamest voru þó ljósin en með þeim varð ferðalagið út í geim ótrúlega sannfærandi og þá ekki síður heimferðin.

Bunraku-tæknin gerir ráð fyrir að brúðunni sé stjórnað af þrem hjálparmönnum þegar hún þarf að komast leiðar sinnar. Þessir hjálparmenn eru dökkklæddir og ljósin forðast þá þannig að smám saman hættir maður að sjá þá. Brúðurnar fá alla athyglina. Aðalstjórnandi Völu var Aldís Davíðsdóttir sem einnig kom að brúðugerðinni með Evu Björgu; hún talar líka fyrir Völu og var reglulega skemmtilegur túlkandi. Nick, Þorleifur og Agnes leikstjóri voru alltaf til taks að hjálpa Völu og tóku líka að sér önnur hlutverk eftir þörfum. En Vala er auðvitað aðalpersónan og gersamlega ómótstæðilegt brúðubarn, bæði fyrir börn og fullorðna.

Þetta er saga um mátt ímyndunaraflsins og það er hollt á öllum tímum, ekki síst kóvid-tímum, að segja börnum að þau geti komist hvert í heimi og geimi sem er fyrir kraft þess.

 

Silja Aðalsteinsdóttir