Vertu úlfurEitt af því sem lengi mun sitja eftir í huganum úr leiksýningunni Vertu úlfur er myndlíking Héðins Unnsteinssonar og Unnar Aspar Stefánsdóttur, höfundar leikverksins og leikstjóra, á lífinu sem ferðalagi á árabáti. Við róum og róum en af því að við snúum baki í áttina sem róið er í vitum við aldrei alveg hvert við erum að fara. Við lítum auðvitað við öðru hverju en tökum svo aftur til við róðurinn. Og stundum þurfum við að leggja árar í bát, leggjast í kjölinn og leyfa bátnum að fara þangað sem hann vill fara.

Bók Héðins, Vertu úlfur – wargus esto, vakti athygli þegar hún kom út árið 2015, en það þarf dirfsku til að setja hana á svið, jafnvel bíræfni. Hana hefur Unnur Ösp, en varla hefði hún látið hugmyndina uppi við nokkurn mann nema af því að hún veit hvers eiginmaður hennar, leikarinn Björn Thors, er megnugur. Saman hafa þau svo róið og róið og í gærkvöldi lögðu þau árar í bát og leyfðu áhorfendum að njóta afraksturs erfiðisins á stóra sviði Þjóðleikhússins. Þau eru með einvala lið með sér: hárrétt jakkaföt Björns og bindi er verk Filippíu I. Elísdóttur; hugmyndarík lýsingin sem oft rændi mann andanum var hönnuð af Birni Bergsteini Guðmundssyni og Halldóri Erni Óskarssyni og stórbrotin tónlistin var á ábyrgð Valgeirs Sigurðssonar; sérstæða leikmyndina gerir Elín Hansdóttir og leyfir Birni að skapa hana með sér á sviðinu allt frá því að hann dregur táknrænan hringinn kringum sig fyrir miðju framsviði. Myndbönd eru notuð á frjóan og áhrifamikinn hátt í sýningunni; þau eru líka verk Elínar. Svo syngja bæði Emiliana Torrini og Prins Póló eigin lög í sýningunni. Yndislegt var að heyra Emiliönu syngja á íslensku – ekki að heyra annað en hún yrki fullt eins vel á því tungumáli og ensku.

Ég tók eftir því að í leikskrá var ekki tekið fram hvað sýningin væri löng eins og jafnan er gert í þjóðleikhússkrám. Eftir á datt mér í hug að kannski væri það ekki á hreinu og gæti verið undir ýmsu komið. En í gærkvöldi var hún ríflega einn og hálfur klukkutími án hlés og á þeim tíma segir Héðinn Unnsteinsson (Björn Thors) okkur sögu sína frá unglingsaldri og fram yfir fertugt. Hann var fullkomlega „eðlilegur“ vinmargur mömmudrengur sem gekk vel í lífinu. Rétt rúmlega tvítugur upplifir hann sínar fyrstu stóru geðsveiflur en nær sér og gengur allt í haginn, verður meira að segja alþjóðlegur sérfræðingur í geðrænum málefnum, þangað til lyfið sem hann hefur tekið samviskusamlega í sextán ár fer að hafa óæskilegar aukaverkanir. Vitaskuld er til lyf við þeim en það er ekki til bóta og samverkandi áhrif lyfja, fjölskyldu, umhverfis og kerfis, sem þolir illa frávik, steypa honum í hrikaleg geðhvörf sem hans nánustu kunna ekki að bregðast við. Afleiðingarnar eru hryggilegar. Fram að því er sýningin upplýsandi, innblásin og skemmtilega óróleg en nær þarna kynngimögnuðu hámarki.

Björn er einstakur leikari eins og hann hefur sýnt ótal sinnum undanfarna tæpa tvo áratugi en hér fær hann verkefni sem reynir á allt sem hann á til undir stjórn leikstjóra sem hann treystir fullkomlega. Og árangurinn er sönn nautn fyrir þá heppnu sem fá að njóta. Hann hefur salinn í hendi sér, stjórnar áhorfendum eins og stóru hljómsveitinni sem hann stjórnar svo mynduglega snemma í sýningunni (þá fékk ég í fyrsta skipti gæsahúð á gagnaugun!).

Leiksýningin Vertu úlfur er fágæt listræn upplifun sem gengur rakleiðis inn að kviku. G-vítamínið mitt í dag er „Flæktu ekki líf þitt að óþörfu“ – enda er þetta einfalt: Sjáið þessa sýningu!