Það er klassískt fyrirbæri að listamannsefni fari út í heim, mennti sig og fullnumi sig í list sinni og snúi svo aftur heim í bæinn sinn, þorpið eða sveitina og sýni hvað þau hafa lært. Flytji með því þakkir sínar til þeirra sem ólu þau upp eða sýndu þeim stuðning um leið og þau segja: Hér er ég, þetta varð úr mér, svona er ég orðinn stór. Í sumar frumsýndi Smári Gunnarsson, sonur Hólmavíkur, einleikinn Skjaldbökuna á Hólmavík, undir stjórn Árna Grétars Jóhannssonar, og dregur enga dul á að þar er hann að hylla þorpið sitt og íbúa þess. Sýningin er núna komin suður og ég sá hana í Norðurpólnum í gærkvöldi.

SkjaldbakanSmári sækir sér mjóan söguþráð eða sögumiðju í veiðimanninn Einar Hansen og ævintýralegan feng hans í risaskjaldböku sem hann dró á land í Hólmavík árið 1963. Smári fæddist ekki fyrr en rúmum tuttugu árum seinna en þetta er samt persónulegur leiktexti því Smári náði að kynnast Einari, sem var um það bil áttatíu árum eldri en Smári. Þá var Einar fluttur suður en bað sex ára snáðann að passa bátinn sinn sem hann varð að skilja eftir á Hólmavík. Starfið gerði Smára bæði stoltan og glaðan á sínum tíma, eins og hann sýndi skemmtilega í sýningunni, og leikmyndin lætur í það skína að það sé lifandi minning um bátinn sem kemur honum af stað að segja þessa sögu. En söguna af risaskjaldbökunni hefur hann frá þorpsbúum sem muna hálfa öld aftur til baka.

Smára verður þó ekki eins mikill matur úr þessari sögu og vænta mætti. Við förum ekki í veiðiferðina með Einari eða fylgjum örlögum skjaldbökunnar almennilega eftir að hún kemur í land. Mest verður honum úr viðbrögðum heimamanna við veiðifréttinni. Annars er þessi stórkarlalega saga fyrst og fremst yfirskin, tilefni Smára til að tala um Hólmavík og til að sýna hvað hann kann. Og hann kann alveg glás. Hann hefur fallega sviðsframkomu og hreyfingar, ágæta rödd og góða eftirhermuhæfileika – sem kemur sér vel þegar einn maður þarf að leika margar persónur. Hann kann líka prýðilega að segja sögu, en sú kunnátta hefði nýst honum betur ef hann hefði verið með bitastæðari texta. Það er óskandi að hann fái fljótlega tækifæri til að sýna enn betur hvað í honum býr.

 

Silja Aðalsteinsdóttir