Þú ert hérÁ nýja sviði Borgarleikhússins sýna þrír leikhúslistamenn okkur nokkrar glöggar svipmyndir úr þjóðlífinu frá undanförnum árum undir titlinum Þú ert hér. Þeir kalla sig Mindgroup og eru Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri, Jón Atli Jónasson leikskáld og Hallur Ingólfsson tónskáld og þeir gera allt í senn, semja textann og flytja hann og sjá um leikmynd, búninga, tónlist og lýsingu. Það vakti athygli hvað þetta var allt saman faglega gert, ekki síst textaflutningurinn, þótt í hópnum sé bara einn menntaður leikari. Jón Atli og Hallur gáfu Jóni Páli lítið eftir í leiklistinni, einkum verður Hallur minnisstæður fyrir sína löngu einræðu í orðastað biskupsforsetakóngsins með míturkórónuna!

Þeir byrja á fylliríi, nema hvað, þrír stórir strákar á rosalegu fylliríi þar sem þeir rifja upp fyrri fyllirí sem ekkert höfðu í för með sér annað en leiðindi, vanlíðan og óminni. Smám saman kemur í ljós að þessir kónar hafa haldið stórar veislur og farið í ennþá stærri veislur um allan heim, á hina fjarlægustu og mest framandi staði, en þeir drukku svo mikið að bæði staðirnir og veislurnar eru þeim meira og minna gleymdar! Til hvers var þá þessi hóflausi fjáraustur ef það eru ekki einu sinni minningar til að orna sér við? Nema þá helst um klaufaskap og niðurlægjandi atvik og gubb. Dæmigerð góðærisdrykkjulæti.

Mér fannst þessi fyrsti hluti og stutt samtölin milli eintalanna lofa góðu. Ef þremenningarnir hefðu haft lengri tíma hefði þeim eflaust auðnast að flétta allt efni og boðskap inn í leiktexta sem hefði talað til áheyrenda á annan hátt. En að því sögðu er brýnt að játa að uppistandið er oft drepfyndið og margar hugmyndir óhugnanlega snjallar. Útfærsla þeirra á slagorðinu Íslendingar vilja SS pylsur var með ólíkindum, neysluæði fjölfötluðu konunnar og sonar hennar sem héldu framhjá Smáralind með Kringlunni sömuleiðis. Afmælisþemun voru mörg frábær, þau náðu einna lengst hjá manninum sem langaði til að drepa einhvern í afmælisveislunni sinni til að toppa vini sína, þó stefndi í að það yrði erfitt því einn hafði verið með mannætuþema og étið eldri borgara! Um leið og maður hlær að fráleitri fyndninni hugsar maður til allra þeirra sem töpuðu lífssparnaði sínum í hruninu og það fer hrollur um hlæjandi kroppinn.

Það er vissulega ekki tómt grín að minnast þess hvernig Ísland var í gær, en það er hollt og gott að hlæja að geðveikinni.

 

Silja Aðalsteinsdóttir