Ég hleyp Gísli Örn Garðarsson hljóp sig nánast sleitulaust í gegnum frumsýninguna á Ég hleyp á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Þó tók sýningin eina og hálfa klukkustund og allan tímann talaði hann við okkur. Hvað getur maður sagt? Þrekvirki? Eldraun? Undur?

Leiktextann samdi Line Mørkeby upp úr samnefndri bók Anders Legarth Schmidt, blaðamanns á Politiken, en pistlana í bókinni samdi hann eftir að sex ára dóttir hans lést úr krabbameini. Hann brást þannig við sinni óyfirstíganlegu sorg að hann hljóp – upp og niður götur, dag eftir dag – og náði á hlaupunum að létta anda sinn nógu mikið til að geta haldið áfram að lifa. Á hlaupunum segir hann okkur bæði frá tímanum eftir að Ellen litla veiktist og þangað til hún dó og frá tímanum sem liðinn er síðan. Tíminn fyrir andlátið eru mínusdagar sem telja sig niður að núlli, síðan eru liðnir plúsdagar en í miðjunni er hinn myrki dánardagur.

Í rauninni er þetta snilldarlegt verk. Fallegur og vel unninn textinn í þýðingu Auðar Övu Ólafsdóttur er óbærilega sorglegur, ætti að græta mann stöðugt frá fyrstu mínútu. En það er eitthvað við stöðug hlaup harmi þrungna mannsins á brettinu sem veldur því að maður grætur ekki heldur hleðst upp í manni spenna; maður verður að komast að því hvernig fer fyrir honum og vill því ekki missa af einu orði.

Ég hleypUmgerðin um verkið er einföld en áhrifamikil. Hlaupabrettið stendur á palli fyrir miðju sviði, pallurinn getur snúist þannig að við fáum að sjá hlauparann frá öllum hliðum. Það var ekki síst hrikalega sterkt að sjá hann á hlið hlaupa á slíkum ofsahraða að hann virtist stundum ekki snerta brettið. Leikmyndin er hugverk Barkar Jónssonar sem notar líka ofantjöld til að auka á áhrifin. Filippía Elísdóttir klæðir Gísla Örn í nokkur lög af klæðum sem hann getur ýmist flett sig eða farið aftur í til að auka á tilbreytingu. Lýsing Pálma Jónssonar jók svo enn á áhrifin, hann notar bæði myrkur og leikhúsreyk til að kalla fram öfluga blekkingu þannig að leikarinn ýmist minnkaði eða stækkaði fyrir augum manns – einu sinni hélt ég að myndband væri komið í stað leikarans á sviðinu, svo ógnarlega stór virtist hann allt í einu. Þarna voru ýmiskonar leikhúsbrellur notaðar til að láta mann standa á öndinni. Enda stóðu leikhúsgestir á öndinni, það heyrðist hvorki hósti né stuna í salnum allan tímann nema þegar óheppinn leikhúsgestur ætlaði út og datt í tröppunum (held ég). Við lá að ég fengi hjartaáfall við þennan óvænta hávaða mitt í einbeitingunni. Annars var hljóðmyndin á vegum Ísidórs Jökuls Bjarnasonar og hún var vel mótuð í kringum helsta hljóðgjafann: hlaupabrettið.

Harpa Arnardóttir fékk það öfundsverða hlutverk að stýra Gísla Erni og leysir það líka af hendi á undraverðan hátt. Gísli var gríðarlega agaður og missti aldrei innlifunina (ekki einu sinni þegar óvænti skarkalinn var í salnum) og hann gekk manni að hjarta væmnilaust.

Nú er hægt að sjá í báðum stóru leikhúsunum einleiksverk með tveim af okkar bestu karlleikurum, Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu með Birni Thors og Ég hleyp í Borgarleikhúsinu með Gísla Erni. Efni beggja verka eru einstaklega brýn og ekki að efa að nýja verkið veiti því eldra öfluga samkeppni.

 

Silja Aðalsteinsdóttir

Ég hleyp