Mér þykir leitt að játa fyrir lesendum mínum að mér finnst ég eiginlega vanhæf til að fjalla um tvo síðustu viðburði sem ég sá á sviði. Annar var dansverkið Bræður í Þjóðleikhúsinu sem var frumsýnt á fimmtudagskvöldið var, hitt var leikverkið Klæði sem var frumsýnt í gærkvöldi á Norðurpólnum. Ástæður til vanhæfi eru þó ólíkar …

Bræður var glæsileg sýning eftir Ástrós Gunnarsdóttur og Láru Stefánsdóttur með tólf karldönsurum og tveimur kvendönsurum (höfundunum sjálfum). Þar var dansað bæði við tónlist sem Ragnhildur Gísladóttir sá um og talaðan texta sem unninn var af Hrafnhildi Hagalín og fluttur af dönsurunum. Allt var verkið gersamlega heillandi og dansararnir voru bæði flottir og fyndnir. Flottastir þóttu mér Gunnlaugur Egilsson, sem dýrmætt var að fá að sjá á íslensku sviði, og Jorma Uotinen, aldursforseti hópsins en einstakur dansari enn og auk þess hörkusöngvari eins og við fengum að heyra. En þótt yndi væri að horfa á hóp fagurra karlmanna dansa með öllum líkamanum, jafnvel rasskinnunum, í smart búningum Filippíu I. Elísdóttur, og þótt einsýnt sé að verkið fjalli um karlmennskuna frá ýmsum hliðum, þá víkja tákn verksins og dýpri merking sér undan túlkun.

KlæðiLeikverkið Klæði er eftir Berg Ebba Benediktsson sem fyrir fáeinum dögum gaf út ljóðabók hjá forlaginu sem ég vinn hjá, þess vegna er erfitt að láta sem ég meti hann kalt og hlutlaust. Þó er óhætt að fullyrða að höfundur hefur gaman af að skoða fólk og velta fyrir sér hegðun þess við hversdagslegar aðstæður. Skoða hlutverkin sem það leikur í samskiptum sínum við annað fólk og hvernig það breytist um leið og skiptir um mótleikara.

Það er klassískur þríhyrningur á sviðinu, ein stúlka, Sara (Sara Margrét Nordahl), og tveir piltar, Ólafur Anton (Hjörtur Jóhann Jónsson) og Pétur (Snorri Engilbertsson). Pétur er gamall vinur Söru sem tekur hana svolítið sem gefna. Ólafur Anton gerir sér leik að því að kynnast henni af því honum líst vel á hana. Strákarnir eru ólíkar manngerðir eins og leikararnir sýna ágætlega: Pétur er víkjandi, vill frekar vera valinn en velja sjálfur og er sennilega smeykur við að binda sig; Ólafur er sjálfsöruggur, veit hvað hann vill og gengur í að öðlast það. Við finnum æ betur eftir því sem líður á sýninguna að Sara veit líka hvað hún vill en hún er stúlka og veigrar sér við því að taka af skarið – auk þess sem aðdáun kallar á aðdáun á móti. Við hyllumst til að elska þann sem elskar okkur enda er það miklu skemmtilegra en að elska þann sem enga ást kann á móti.

Efnið er sígilt og persónusköpunin ekki flókin, en aðferð Bergs Ebba við að koma efninu á framfæri er skemmtilega óvenjuleg. Hann notar fatnað markvisst til að leiða sögu sína áfram. Sara og Pétur bregða bæði á það ráð að skilja fataplögg eftir í húsi hins, væntanlega til að fá tilefni til að koma í heimsókn og skila þeim. Ólafur Anton grípur tækifærið til að tala við Söru um leið og hann réttir henni hanska sem hún hefur misst, kannski viljandi. Svo gerast atriði bæði í fatabúð þar sem afgreiðslumaður (Ólafur Ásgeirsson) gefur piltunum góð ráð um föt og við fataskápa Ólafs og Söru þegar þau eru að velja sér föt á fyrsta stefnumótið. Í samræðum um fatnað afhjúpar textinn margan dulinn sannleika um okkur, hvernig við búum okkur til á hverjum degi og fyrir hvert tækifæri eftir því hvað við viljum sýna – og hvað ekki.

Textinn er blátt áfram og þekkilegur, og Halldór Halldórsson leikstjóri fer þá leið að leyfa honum að njóta sín án nokkurra stæla. Persónurnar eru fólk sem við þekkjum öll og það er afar kunnuglegt á sviðinu. Búningavalið er mikilvægt, og Hildi Sigrúnu Valsdóttur tekst vel upp við það. Svo situr Snorri Helgason til hliðar og leikur hugljúfa tóna á gítarinn sinn. Mjög ánægjulegt – verð ég að fá að segja að lokum.

Silja Aðalsteinsdóttir