Wide Slumber for lepidopterists (Djúpur dúr fyrir fiðrildafræðinga??) er tónverk utan um ljóðabók eftir Angelu Rawlings, sviðsett með þrem söngvurum af Söru Martí og VaVaVoom og sýnt í Tjarnarbíó. Tónlistin er eftir Valgeir Sigurðsson, seiðandi og svæfandi eins og hæfir verki um rannsóknir á svefni og lífsferli fiðrilda. Söngur Alexi Murdoch, Sasha Siem og Ásgerðar Júníusdóttur var glæsilegur og undirleikurinn ekki síðri. Leikmynd Evu Signýjar Berger var úthugsuð og óvenjuleg, búningar Hörpu Einarsdóttur fallegir og spennandi. En það sem hafði áhrif fyrst og fremst voru myndbandsverkin og ljósaleikurinn eftir þá Inga Bekk og Pierre-Alain Giraud. Myndirnar og litirnir sem birtust á baksviðinu og léku sér á og að sviðsmununum voru oft svo æðisleg að augu mín stóðu á stilkum.

Wide Slumber for lepidopteristsÁstæða þess að myndverkið tók yfir hjá mér var sjálfsagt að hluta til sú að orðaskil heyrðust illa í sungnum texta Rawlings. Þessi ljóðabók er vel þekkt þó að ég hafi því miður ekki lesið hana og ég hefði fegin þegið sýnishorn úr henni í leikskrá í stað fræðigreina um fiðrildi (sem þar að auki eru bara á ensku). En ógleymanleg verða hrímhvítu trén sem uxu smám saman yfir baksviðið, hendurnar allar sem umluku og léku um líkama Alexis (einkennilega fagrir líkamshlutar handleggir), dásamleg senan þegar fiðrildið Sunna Reynisdóttir brýst út úr púpu sinni í undursamlegum litbrigðaleik og þegar hún vefur silkiböndin utan um Alexi. Þessi sviðslistahópur – eða hópar, því með myndræna leikhópnum VaVaVoom stendur tónlistarhópurinn Bedroom Community að þessari sýningu – getur beinlínis galdrað eins og maður varð vitni að aftur og aftur. Það verður alveg nauðsynlegt að lesa þessa ljóðabók til að komast að því sem örvaði þau svona til listrænna dáða.

Miðasalan í Tjarnarbíó var enn á ný talsverður flöskuháls í gærkvöldi og verða forráðamenn hússins að gera eitthvað í því. Við hjónin komum 20 mínútum fyrir sýningu, þá var eðlileg biðröð við miðasöluna, kannski tíu manns á undan okkur. Við komumst að loksins klukkan átta og þá var ég beðin (á ensku) um kennitöluna mína (til hvers???) og spurð hvar ég vildi sitja. Þá náði biðröðin á eftir mér langt út á götu! Sýningin hófst loks klukkan hálf níu og þurfti talsverða list til að töfra úr manni fýluna. Sem betur fer tókst það undir eins en þetta er ekki nógu gott.

Silja Aðalsteinsdóttir