Leikfélagið Reine Mer frumsýndi í dag látbragðsleikinn og hálfgrímusýninguna Ég heiti Steinn  í Tjarnarbíó. Höfundur er Lucas Rastoll-Mamalia sem einnig leikstýrir og gerir myndbönd; skemmtilegar grímurnar eru eftir Francescu Lombardi, lýsingu hannar Juliette Louste og Sacha Bernardson sér um tónlistina. Sýningin er orðlaus en leikararnir gefa frá sér mjög skiljanleg hljóð!

Steinn litli (Lucas Rastoll-Mamalia) er að leika sér í fjörunni, aleinn en leiðist ekki vitund. Hann er með nóg af skemmtilegum pappír í bakpokanum sínum, pappírinn er gylltur öðrum megin en silfurlitur hinum megin og Steinn býr til alls konar úr honum – lítið dýr sem hann leikur við þangað til það verður ergilegt og ræðst á hann, blómvönd og fleira. Þegar hann þarf að skreppa heim skilur hann pappírinn eftir og þá koma tveir krakkar, Urður og Berg (Sigríður Ásta Olgeirsdóttir, Sumarliði V. Snæland Ingimarsson) og fara að leika sér að honum. Það reynast ekki vera nein takmörk fyrir því hvað er hægt að gera við svona pappír, bæði litlar arkir og stærri, það er hægt að verða kóngur í skikkju og jafnvel fá sér reiðtúr á fjörugum klár. Skemmtilegast er þó að leika sér að örkinni sem er svo stór að það má breiða hana yfir góðan hluta áhorfenda!

Þegar Steinn kemur til baka verður hann fúll í fyrstu en sættir sig fljótt við félagskapinn. Það er líka eins gott að þau séu fleiri saman því það kemur hávaðabrim og flóð þannig að þau þurfa að flýja um borð í bát (sem líka var gerður úr pappír) til að bjarga sér. Þegar þau ná landi verða þau fegin að njóta ylsins hvert af öðru yfir nóttina. Þá eru þau líka orðin bestu vinir.

Persónurnar eiga að vera steinar af ólíkri stærð, það er táknað með hálfgrímunum en þó er erfitt að koma því heim og saman við leikinn og atburðarásina. Líklega er höfundur að reyna að skrifa sig framhjá því að börnin eru eftirlitslaus í fjörunni og þurfa að bjarga sér á eigin spýtur úr bráðum háska. Ég býst ekki við að þetta misræmi trufli unga leikhúsgesti enda var sýningin bæði augnayndi og nóg að gerast allan klukkutímann sem hún tók.

Silja Aðalsteinsdóttir

PS Ég giska á hver leiki hvaða hlutverk því ekki er hægt að sjá hver er hvað vegna þess hvað grímurnar fela stóran hluta af andlitinu. Ef ég hef giskað vitlaust er vandalaust að laga það.