Leikfélagið Hugleikur frumsýndi sína fyrstu sýningu í nýju Hugleikshúsi við Langholtsveg í gærkvöldi. Húsið er þekkt sem Fóstbræðraheimilið en gestir Hugleikara ganga inn baka til. Þetta er góður staður og fer vonandi vel um félagið þar. Nýja verkið heitir Hráskinna og er eftir þekkt Hugleiksskáld, Ármann Guðmundsson, Ástu Gísladóttur, Sigríði Báru Steinþórsdóttur og Þorgeir Tryggvason, en leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson.

Við erum stödd á biskupssetrinu Skálum á galdraöld og er einkum biskupsfrúin Guðrún (Anna Birta Lionaraki) liðtæk í galdrabrennunum. Guðmundur biskup bóndi hennar (Eyjólfur Kristjánsson) er kominn að fótum fram en frú Guðrún væntir sonar síns Guðmanns (Ingvar Örn Arngeirsson) heim úr Svartaskóla á næstunni og hann á að taka við embætti föður síns. Á Skálum þjóna biskupsfrúnni systurnar Skarlotta og Heiðveig (María Björt Ármannsdóttir og Selma Rán Lima), annað heimafólk á biskupssetrinu er framliðið en eldsprækt þrátt fyrir það. Fremst í þeim flokki eru Móri (Flosi Þorgeirsson), dæmdur til að fylgja ætt biskups í níu ættliði, og Guðveig (Margrét Þorgeirsdóttir) sem drap sig eftir að Guðmann biskupssonur hafði borið út barn þeirra. Á bænum Féþúfu í grenndinni býr ekkjan Auður ásamt Guðsteingrími syni sínum (Heiðrún Kristín Guðvarðardóttir og Halldór Sveinsson) en Guðmundur bóndi (Sjafnar Björgvinsson) liggur ekki kyrr í gröf sinni, enda flæmdur fram af björgum af biskupsfrúnni. Allt umhverfið iðar svo af draugum sem meðal annars leika listavel á hljóðfæri í hljómsveitinni Nýdauð!

HráskinnaÞó að biskupsfrúin þykist fyrirlíta galdra og vilji brenna galdramenn er ekki laust við að hún þrái að komast í þeirra hóp því hún hefur með hjálp galdrakindarinnar Kjartönu (Hrafnhildur Þórólfsdóttir) komist yfir galdrabókina Hráskinnu frá Guðmundi á Féþúfu. Gallinn er bara sá að hvorug þeirra getur lesið bókina. Svo fær frúin annað að hugsa um því sonurinn kemur heim úr námi en er ekki sjálfum sér líkur. Hann lenti í því að vera síðastur út úr skólanum og þó að hann hafi sloppið lifandi á hann ákaflega bágt með að nefna almættið. Hann kúgast í hvert sinn sem hann heyrir eða þarf að segja nöfn og heiti guðs og það er erfitt því allir innfæddir í sveitinni eru kenndir við hann. Senn kemur líka í ljós að Kölski hefur elt Guðmann til Íslands og hleypur að gamni sínu í persónur sem eiga í samskiptum við hann, Guðmanni til mikillar hrellingar. Úr þessu öllu saman verður einn eldfjörugur hráskinnaleikur.

Að hugleikskum hætti er mikið og fagurlega sungið í sýningunni. Sönglög og textar eru eftir höfunda auk Sævars Sigurgeirssonar og Lofts S. Loftssonar, skínandi vel gerðir. Sérstaklega vil ég nefna vöggulag sem Skarlotta syngur, klassískt í uppbyggingu, fallegt og skemmtilegt, auk þess sem María Björt söng það afskaplega vel.

Frumsýningin tók meira en þrjá tíma í flutningi, með hléi. Það er helst til mikið og hefði verið skaðlaust að stytta þar sem unnið var lengst með sömu hugmyndirnar. Því dettur svo margt í hug, Hugleiksfólki. Rúnar leikstjóri hefur annars unnið feikivel með hópnum. Fjöldaatriðin voru samstillt og áreynslulaus og leikur í helstu hlutverkum var eðlilegur og lifandi. Aðdáunarvert var að sjá netta breytinguna á Skarlottu eftir að hún flytur yfir í hliðarheim hinna dauðu og sömuleiðis voru þær alveg dýrlegar biskupsfrúin og Heiðveig þegar kölski hljóp í þær! Það er meira en að segja það að skipta yfir í gerólíkan persónuleika á augnabliki. Hrafnhildur var ógnvekjandi í hlutverki galdrakerlingarinnar og söngur hennar áhrifamikill. Ingvar Örn kúgaðist með tilþrifum og ræðan hans þar sem hann snýr út úr blessunarorðunum til þess að koma þeim út úr sér var bæði snilldarlega samin og flutt. Persóna vísindaáhugamannsins Guðsteingríms á Féþúfu var líka skemmtilega hugsuð og útfærð hjá Halldóri. Búningar, leikmunir og gervi, bæði lifandi manna og þó einkum dauðra, voru listilega gerð af Dýrleifu Jónsdóttur, Maríu Björt, Guðrúnu Eysteinsdóttur, Áslaugu Jónsdóttur og Ninnu Körlu Katrínardóttur. Ég nefni sérstaklega sjálfa Hráskinnu sem lítur út eins og ekta vara – og er það kannski …

Hugleikur er afar athyglisverð jurt í reykvískri leikhúsflóru og ástæða til að óska honum til hamingju með nýja húsnæðið og nýju sýninguna. Næstu sýningar eru 22. apríl kl. 15 og 26. apríl kl. 20. Miða má panta á hugleikur@hugleikur.is. Góða skemmtun!

-Silja Aðalsteinsdóttir