Fyrsta verk Íslensku óperunnar á nýju leikári er sýning fyrir alla fjölskylduna og á annarri sýningu í gær var fólk á öllum aldri, allt frá litlum börnum upp í afa og ömmur. Þetta er vel til fundið og full ástæða til að hvetja óperuunnendur til að nota tækifærið og kynna listina fyrir börnum og barnabörnum. En ráðlegt er að kynna efnisþráðinn fyrirfram fyrir börnunum; ágætt yfirlit yfir hann er í leikskránni, og hlé á milli annars og þriðja þáttar getur hjálpað til við að setja unga áheyrendur inn í framvindu verksins. Verkið er barnaóperan Hans og Gréta eftir þýska nítjándu aldar tónskáldið Engelbert Humperdinck og hún er sýnd í Norðurljósasalnum þar sem hefur verið komið fyrir pöllum þannig að sætin eru upphækkuð en leikið er niðri á gólfinu. Texti óperunnar er eftir Adelheid Wette, systur Humperdincks, en hann er sunginn í íslenskri þýðingu Þorsteins Gylfasonar og Reynis Axelssonar. Leikstjóri er Þórunn Sigþórsdóttir.

Hans og Gréta er eitt þekktasta ævintýrið í safni Grimmsbræðra. Sagan af systkinunum sem heyra um nótt foreldrana plana að koma þeim fyrir kattarnef en reyna að snúa á þau með því að strá fyrst glitrandi steinum í slóðina sem þau ganga og síðar brauðmolum hefur blásið börnum heimsins kjarki í brjóst gegnum aldirnar. Systkinin sýna líka snarræði í útfærslu Humperdincks en hann veigrar sér við því að gera hlut foreldranna eins grimmilegan. Hjá honum eru krakkarnir bara sendir út í skóg til að tína jarðarber af því að móðir þeirra missti óvart kvöldmatarefnið niður þegar hún var að eltast við börnin til að flengja þau fyrir leti og ómennsku.

Það er sólríkur dagur í skóginum þegar óperan hefst. Gréta (Jóna G. Kolbrúnardóttir) er vöknuð og farin að bjástra við hálfunninn kúst en kústagerð er iðnin sem fjölskyldan hefur lifibrauð sitt af. Þegar Hans (Arnheiður Eiríksdóttir) kemur út til hennar leysist vinnan upp í söng og dans af því að Gréta býður bróður sínum í dans og Hans er ærslabelgur sem nennir ekki að dansa eins fínt og systir hans (sú aría var alveg sérstaklega skemmtileg). Þetta kæruleysi líkar móðurinni (Hildigunnur Einarsdóttir) ekki og hún skammar krakkana og sendir þau svo út í skóg að tína ber. Þegar pabbinn (Oddur Arnþór Jónsson) kemur heim, kampakátur með nægar vistir, verður hann afar áhyggjufullur af því að börnin eru ekki komin heim og mamman skammast sín.

Börnin tína vissulega ber en borða þau líka (aðallega Hans!) og syngja og leika sér fram í myrkur og rata þá ekki heim. Þau verða dauðskelfd við bergmálið af eigin hrópum en leggjast loks til hvíldar, og þá syngur lævís Óli lokbrá (Kristín Einarsdóttir Mäntylä) þau í svefn. Þegar börnin fara á stjá morguninn eftir, svöng og súr, ramba þau á hús í skóginum sem alskreytt er sykurbrauði. En þar býr vond norn (Dóra Steinunn Ármannsdóttir) sem veiðir börn og bakar úr þeim piparkökubörn. Hún læsir Hans inni í búri og skipar Grétu að elda ofan í bróður sinn svo að hann fitni. Og nornin sækir piparköku sem sýnishorn inn í ofninn sinn þar sem logar glatt. Gréta hlýðir en um leið og hún fær tækifæri til ýtir hún norninni sjálfri inn í ofninn og bakar úr henni þessa fínu piparkökunorn! Þó að Humperdinck hlífi foreldrunum í sinni gerð af ævintýrinu hlífir hann norninni ekki, sem betur fer. Þá yrði lítið eftir af því sem hefur heillað gegnum aldirnar. En þegar nornin er brunnin (eða bökuð) lifna allar piparkökurnar við og það var sjón að sjá sjálfan Gradualekór Langholtskirkju flæða út úr búri nornarinnar í hvítum fötum eins og syngjandi englabörn.

Þó að Norðurljósasalurinn hafi ekkert eiginlegt svið, aðeins endann á flötu gólfi salarins, gerir Eva Signý Berger leikmyndahönnuður sitt besta til að skapa þar ævintýraveröld. Til vinstri er Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri með sitt lið, til hægri er hús sem framan af er fábrotið heimili fjölskyldunnar en umbreytist svo í litríkt sælgætishús nornarinnar í lokaþætti. Baksviðið er tjald úr gervigrenilengjum sem gefur furðu sannfærandi mynd af skógi með geysilega háum trjám. En á milli hljómsveitar og húss er nægt athafnasvæði fyrir systkinin í leik og dansi, meira að segja stífudansi.

Óperan er öll sungin og tónlist Humperdincks er fjörug og skemmtileg, sönglesið en þó einkum lögin eða aríurnar. Einstaka sinnum bregður meira að segja fyrir tónlist sem við þekkjum vel, því Gréta syngur lagið sem við þekkjum undir heitinu „Það búa litlir dvergar“. Ekki skildi ég um hvað sá söngur fjallaði í óperunni því þó að Jóna hafi afar fallega rödd var engin leið (fyrir mig) að ná þræði í texta hjá henni. Sama er að segja um Arnheiði og Kristínu. Betra var að skilja Hildigunni og Dóru Steinunni en alger léttir þegar Oddur kom á svið því hjá honum skilst hvert einasta orð. Hann fær líka vel viðeigandi aríur, kemur syngjandi og trallandi inn með nægar vistir handa sinni svöngu fjölskyldu en verður svo ósköp hryggur þegar hann áttar sig á að börnin eru ekki komin heim og farið að rökkva. Allir söngvararnir léku ágætlega en best voru þau Oddur og Dóra sem hafði hrikalega gaman af að vera stórhættuleg glamúrnorn. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur voru fínir, einkum nornarinnar.

Hljómsveitin lék vel eftir því sem ég hef vita á en má hafa í huga að hún er ekki ofan í gryfju heldur uppi á sviðinu og þarf því að hafa hemil á hávaðanum ef ekki á að yfirgnæfa sönginn. Til mikilla bóta væri ef textar aríanna væru á vef Íslensku óperunnar, þá væri hægt að lesa þá fyrirfram og átta sig betur á efnislegum smáatriðum.

-Silja Aðalsteinsdóttir