Loksins í gær komst ég á nýjustu sýningu Leikhópsins Lottu, Litaland, sem var frumsýnd í lok maí. Í Reykjavík sýna þau í Ævintýraskógi Elliðaárdalsins, að venju, en þau fara líka beinlínis um allt land með sýninguna. Í þetta sinn semur Anna Bergljót Thorarensen sitt eigið ævintýri í stað þess að vinna út frá þekktum minnum og hún kýs að blanda sér beint í mestu hitamál dagsins.

LitalandSagan hefst í hinum auðugu Gulheimum þar sem Glódís drottning (Sigsteinn Sigurbergsson) er um það bil að láta af embætti og víkja fyrir syninum Geisla (Baldur Ragnarsson). Hann er alveg yndislegur strákur en þykir ekki alveg nógu prúður prins, á erfitt með stundvísina til dæmis enda fáum við fljótlega að vita að hann er maður ástfanginn, á meira að segja von á barni með sinni heittelskuðu. Það þætti móður hans dásamlegar fréttir ef ekki kæmi til sá smávandi að kærastan er hún Rjóð (Anna Bergljót Thorarensen) og hún býr í Rauðheimum sem Gulverjar vilja helst ekki hafa nein samskipti við. Þegar barnið fæðist – hann Litli litur (Rósa Ásgeirsdóttir) ¬– þá er hann líka blanda af foreldrunum, hreinlega appelsínugulur! Sjálfur túlkar hann það sem svo að hann sé „brot af því besta“ af þeim báðum.

Eitt land enn kemur við sögu þótt við förum ekki þangað. En við hittum flóttamenn frá Blálandi því þar hafa miklar hörmungar gengið yfir svo engum er vært þar lengur. Amma gamla (Andrea Ösp Karlsdóttir) veit að Gulverjar eiga mikið ónotað land og reynir að fá þar hæli fyrir sitt fólk en Glódís drottning neitar henni, hún er fús til að gefa fé og fatnað en vill enga fátæka Bláunga í sinn bjarta heim. Geisli er óánægður með þá niðurstöðu og gengur ótrauður gegn skipunum móður sinnar. Í lokin eru allir sáttir við litablöndunina því auðvitað sér hver maður að fjölbreytnin er best.

Sagan er skýr og talar beint til barna sem skilja ágætlega boðskapinn. Eldra barninu sem fylgdi mér fannst eftir á alveg óbærilegt að Blær litli Bláungi skyldi týnast á flóttanum og ekki finnast aftur en það gefur tækifæri til að útskýra fyrir börnum hvað það er nöturlegt fyrir fólk – ekki síst börn – að þurfa að flýja landið sitt og hvað það leggur sig í stóra hættu með því.
Eins og venjulega er mikið um söng, dans og gleði í sýningunni. Fjörug lög og texta eiga þau Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Rósa Ásgeirsdóttir og Sævar Sigurgeirsson en Kristina R. Berman gerir búninga og grímur sem undirstrikuðu litina einstaklega fallega. Leiksvið Egils Ingibergssonar og Móeiðar Helgadóttur er litríkt eins og vera ber og býr yfir svo mörgum óvæntum skotum, opum og felustöðum að undrun sætti. Utan um allt saman heldur leikstjórinn Stefán Benedikt Vilhelmsson og skeikar hvergi. Ég óska Leikhópnum Lottu innilega til hamingju með tíu ára afmælið og hlakka til næstu ævintýraferðar í Elliðaárdalinn.