VakúmMæðgurnar Auður Ava Ólafsdóttir og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir leggja saman krafta sína í poppóperunni Vakúm sem var frumsýnd í Tjarnarbíó í gærkvöldi á opnun hátíðarinnar Vorblóts þar á bæ. Hugmyndin er Melkorku og útfærslan hennar og leikhópsins undir leiðsögn eða eftirliti Dóra DNA. Textinn er Auðar Övu en tónlistin er eftir Árna Rúnar Hlöðversson. Magnús Leifsson og Arnar Ásgeirsson sáu um leikmynd og búninga.

Vakúm þýðir lofttæming og sýningin hefst í litlum kassa úr gagnsæju plasti innarlega til vinstri á sviðinu. Inni í honum eru ungmennin fimm sem mynda hópinn, Melkorka sjálf, dansararnir Ásgeir Helgi Magnússon og Elísa Lind Finnbogadóttir og söngvararnir Auðunn Lúthersson og Gunnar Ragnarsson. Ekki er kassinn þó lofttæmdur því þau syngja þar inni um stóra tómið inni í sér – „Í miðju því sem ekkert er / ég hvorki þig né sjálfan mig sé“. Þetta upphafslag var einna líkast fagurri kirkjutónlist, heillandi verk. Kristjana Stefánsdóttir sá um kórútsetningar enda var samsöngur hópsins afar fallegur. Fleiri stök lög voru skemmtileg og þau voru ágætir einsöngvarar líka.

Ekki unir hópurinn lengi innilokaður, Ásgeir Helgi rífur gat á kassann og þau skríða út eitt af öðru, út í heiminn, fávís og forvitin, kát og fjörug eins og krakkar sem uppgötva framandi og óvænta veröld. Það jafnast auðvitað fátt á við að horfa á unga, vel þjálfaða líkama dansa, hoppa, veltast um og hamast og þau voru snjöll. Búningarnir voru einfaldir, hvítir bolir og rauðar Adidas buxur. Þegar þau stóðu hlið við hlið á sviðinu og dönsuðu í takt voru þau eins og tvær langar rendur, önnur hvít og hin rauð – það var einfalt og flott. Svo bætist við skínandi grá birta frá álteppum sem þau leika sér að af mikilli hugkvæmni. Að lokum hverfa þau aftur á upphafsstað, þar var lokalagið, „Nýr heimur“, sungið og jafnaðist á við það fyrsta í töfrum.

Eftir lýsinguna á tóminu þar sem ekkert er fjallar texti Auðar Övu um uppgötvanir og aðgerðir – og tilfinningar. Þar er sungið um ungar þrár – þau vilja ekki stríð heldur hlutabréf í stjörnuþoku, þau vilja njóta næðis og deila öllu jafnt, „fimm áttavilltar sálir með biskví í boxi // á meðan heimurinn ferst …“ Ástina er vel hægt að finna á sorphaugum Suðurlands, líka einn uppá heiði, í tómu rúmi eða góðu tómi og allt er í góðu, í megagóðu. Þetta eru margræðir textar sem hljómuðu sannfærandi úr munni þátttakenda.

Vakúm er skemmtileg sýning sem talar til þeirra sem hafa gaman af tónlist og söngtextum ekki síður en dansi. Kannski varð dansinn jafnvel svolítið í þriðja sæti. Auður Ava gat þess í samtali fyrir sýninguna að hún hefði séð nokkur rennsli og þau hefðu verið býsna ólík hvert öðru. Ef til vill er verkið ennþá á sköpunarstigi og þá finnst mér sjálfsagt að halda áfram við það. Hugmyndin er góð og efniviðurinn líka.

-Silja Aðalsteinsdóttir