Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gærkvöldi nýtt leikrit eftir Tyrfing Tyrfingsson, Helgi Þór rofnar, á Nýja sviði Borgarleikhússins undir stjórn Stefáns Jónssonar. Eins og Tyrfingur vísaði í grískar goðsögur um Fedru og Hyppólýtus í síðasta verki sínu, Kartöfluætunum, vísar hann hér í goðsögurnar um Kassöndru og fleiri grískar hetjur, lætur örlög guða og mikilmenna endurspeglast í lífi sinna fremur lágkúrulegu persóna sem stækka og magnast upp við það.

Helgi Þór rofnarHelgi Þór (Hilmar Guðjónsson) vinnur á líksnyrtistofu og líkbrennslu Jóns föður síns (Bergur Þór Ingólfsson) og er í byrjun leiks að snyrta lík eldri karlmanns (Kári Gíslason, ótrúlega „dauður“, bráðlifandi maðurinn!). Til hans kemur Katrín (Þuríður Blær Jóhannsdóttir), dóttir líksins, til að fylgjast með. Það kemur þó smám saman í ljós að hún hefur takmarkaðan áhuga á föður sínum enda þekkti hún hann lítið en þeim mun meiri áhuga á Helga Þór. Þau höfðu verið að slá sér upp saman nokkru áður, við fáum að sjá þau kynni á myndbandi Elmars Þórarinssonar, einu hlýju senurnar í verkinu. Inn á þau æðir Jón og hefur fallið í trans, að eigin sögn, og séð miklar sýnir, þar á meðal banvænan bruna og tunguskurð. Helgi Þór og Katrín taka lítið mark á rausinu í karlinum, þau þurfa að hugsa um að halda líkinu virðulega útför (eða þannig).

Fyrrum ástmaður Helga Þórs er Bakarinn (Hjörtur Jóhann Jónsson) sem líka er eins konar stjúpi hans því hann hafði átt í ástarsambandi við móður Helga og reynt að bjarga henni frá karlrembunni Jóni. Jón hatar Bakarann innilega eins og vænta má og samskipti þeirra eru ofbeldisfull og grimm. Bakarinn á dóttur sem hann sinnir lítið, hefur gefið pabbahelgarnar upp á bátinn, Helga Þór til sárrar hneykslunar. Eins konar fulltrúi dótturinnar er Stelpan (Erlen Ísabella Einarsdóttir) sem kemur í bakaríið og hamast í Bakaranum með litlum árangri.

Feðraveldið fær enn á baukinn í þessu verki. Þar eru feður ýmist til lítils gagns eða mikils ógagns. Afleiðingin er auðsæ á afkvæmunum sem tekst ekki að komast yfir vanræksluna þó að þau reyni. Texti Tyrfings er í senn beittur og fyndinn og textavinnan var eðalfín eins og búast má við af þessum leikstjóra. Þó átti ég erfitt með að ná texta Erlenar Ísabellu, einkum í fyrri innkomu hennar. Hún var aðeins of æst til að setningarnar skiluðu sér.

Hilmar gengur áreynslulaust inn í hlutverk Helga Þórs og gerir honum verulega góð skil, bælingunni, húmornum og sársaukanum. Má ítreka það að Hilmar hefur einstakan hæfileika til að ná fram fyndni texta sem maður vissi kannski ekki að væri fyndinn. Þuríður Blær sýnir átakanlega týnda stúlku sem glutrar niður tækifærinu til að verða heilli manneskja. Margrét Benediktsdóttir bjó Bergi Þór afar skondið gervi – gamli líksnyrtirinn minnti á útlifaðan götulistamann með síða gráa hárið. Hjörtur Jóhann var frábær í hlutverki Bakarans en helst til ungur í það samt. Það er ósennilegt að hann hafi verið ástmaður móður Helga Þórs – og hafi þau tök sem hann reynist hafa á Helga líka.

Gretar Reynisson býr verkinu afar kuldalegt umhverfi. Vinstra megin á breiðu sviðinu er líkbrennsluofninn og líksnyrtibekkurinn fyrir framan hann. Á hinum endanum, hægra megin, er ofn Bakarans og vinnuborðið hans fyrir framan hann þar sem brauðin hans eru að hefast. (Í upphafssenunni er kaka í mannslíki á vinnuborðinu sem kallast á við líkið á bekknum hinum megin!) Í miðjunni er færanlegur veggur sem myndbandið er sýnt á. Hann færist innar í jarðarförinni og þegar rofar til hjá persónunum en nær þegar þrengir að þeim. Snjallt. Búningar Stefaníu Adolfsdóttur eru svart-hvítir að mestu á karlmennina í samræmi við störf þeirra en Katrín fær mun litríkari klæði, m.a. frumlegan sérhannaðan partýkjól. Í hádramatískum lokakaflanum er hún þó í einföldum lærasíðum hvítum bol. Hljóðheimur verksins er þungur og á stundum óhugnanlegur. Tónlistin er eftir Magnús Jóhann Ragnarsson og hljóðmyndin er Garðars Borgþórssonar. Vandaða lýsinguna hannar Pálmi Jónsson.

Þetta er ekki glaðlegt verk þótt oft sé það fyndið, en boðskapurinn er brýnn.

 

Silja Aðalsteinsdóttir