Nóttin nærist á deginumÍ leikritinu Nóttin nærist á deginum sem var frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi notar höfundurinn, Jón Atli Jónasson, tvö ágeng fréttaefni frá síðustu árum og fléttar þau saman. Þetta eru annars vegar hrunið sem hefur skilið hjónin í verkinu eftir á eins konar eyðiey, í hálfkláruðu húsi í hverfi sem aldrei var byggt, og hins vegar fréttir af karlmönnum sem hafa lokað konur inni í kjöllurum eða útihúsum og geymt þær þar árum saman og notað til kynlífs.

Bakgrunnur leikritsins kemur fram í smásögunni „Í kjallaranum“ sem er birt í leikskránni, sagan af hjónunum sem misstu „allt“ í hruninu. Húsið þeirra var að vísu orðið fokhelt og þau voru flutt inn en ekki búin að gera húsið almennilega íbúðarhæft. En þau höfðu undirbúið dálitla íbúð í kjallaranum handa dóttur sinni og manninum hennar þegar þau kæmu heim úr sérnámi í Svíþjóð. Þaðan eru þau ekki lengur væntanleg vegna aðstæðna hér heima en þangað niður koma þau hjónin, Þórir (Hilmar Jónsson) og Vera (Elva Ósk Ólafsdóttir), í upphafi leikritsins í eins konar eftirlitsferð. Og þaðan kemst Vera ekki aftur því Þórir læsir hana inni í kjallaranum (um leið og hann segir „djók“) og hleypir henni ekki út. Í sögunni er einangrun hennar alger því þar er henni færður matur gegnum kattalúgu en leiksýning krefst meiri nærveru Þóris, enda sest hann að hjá henni en fer út sjálfur að afla vista. Í einni slíkri veiðiferð sækir hann líka unglingsstúlku (Birta Huga Selmudóttir) til að fjölskyldulífið verði sem líkast því þegar það var best, á uppvaxtarárum dótturinnar. Meðan þær eru að venjast kjallaravistinni gefur hann þeim sterk deyfilyf til að hafa þær góðar (= sofandi) en smám saman venjast þær vistinni og fara að haga sér eins og hann vill. Og þó aldrei með þeirri gleði sem hann ætlast til. Fangar geta kannski hænst að fangaverði sínum, að mati höfundar, en þeir verða aldrei almennilega hamingjusamir í prísundinni.

Hilmar, Elva Ósk og Birta, 10. bekkjar grunnskólanemi, fara ljómandi vel með hlutverk sín undir stjórn Jóns Páls Eyjólfssonar og sviðið hennar Ilmar Stefánsdóttur er alveg æðislegt: berir steinsteypuveggir með járnaendum út úr, en leikritið virkaði yfirborðslegt, kannski af því það byrjar svo seint í atburðarásinni. Skautað framhjá átakamálum í samtölum en stokkið beint inn í geðveikt ástand mannsins – sem Hilmar túlkaði andskoti vel. Eiginlega virkaði leikritið einfeldningslegt þó að ekki sé fallegt að segja það, það er eins og undirtextann, margræðnina, vanti, það hætti að koma á óvart. Undir þessa einfeldni ýtti tónlistin sem var eins og í al-einföldustu B-mynd og þó var hún eftir Hall Ingólfsson sem á ýmislegt til eins og við vitum. Hugmyndin að verkinu hefur ýmsa möguleika; kannski á Jón Atli bara eftir að vinna það betur.

Silja Aðalsteinsdóttir