Karli Marx varð einhvern tíma að orði að stórir atburðir mannkynssögunnar gerðust fyrst sem harmleikir en endurtækju sig svo sem farsi. Írska leikskáldið Enda Walsh fer með þessa kenningu alla leið og svolítið lengra í verkinu Heima er best (The Walworth Farce) sem var frumsýnt í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöldið undir stjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Þar segir frá Dinny, rosknum írskum karlmanni (Þröstur Leó Gunnarsson) sem býr með tveimur sonum sínum um tvítugt í stórri íbúðablokk í fátækrahverfi í London. Íbúðina býr Ilmur Stefánsdóttir til af mikilli hugkvæmni. Dinny flúði frá Cork á Írlandi fyrir mörgum árum eftir að hafa framið glæp sem yngri sonurinn, Sean (Jörundur Ragnarsson) varð vitni að en Dinny hefur ekki tekið út refsingu fyrir, honum tókst að flýja áður en hann náðist og hefur verið í felum síðan. Dagurinn sem glæpurinn var framinn hefur síðan verið honum efni í farsa sem hann pínir syni sína til að leika dag eftir dag til að má út minningar þeirra og skipta þeim út fyrir nýjar. Drengirnir taka þátt í leiknum en reyna á milli atriða, þegar pabbi heyrir ekki til, að rifja upp hvernig þetta var í veruleikanum – til að halda í sínar raunverulegu minningar og þar með vitglóruna.

Heima er best

Í leiknum í leiknum er pabbinn bara pabbinn. Sean tekur að sér nokkur karlhlutverk, einkum hlutverk Paddys, bróður Dinnys, en eldri bróðirinn Blake (Guðjón Davíð Karlsson) leikur allar konurnar í farsanum, þeirra á meðal móður sína Maureen og Veru, eiginkonu Paddys, en þar að auki auðugan klæðskipting. Báðir bræðurnir þurfa sí og æ að skipta um gervi en Guðjón Davíð hafði ansi miklu meira að gera en Jörundur. Stundum var hann þrefaldur á sviðinu, sjálfur í einu gervi meðan aðrir héldu uppi hárkollunum úr hinum gervunum sem hann gat smeygt sér undir í hvelli. Hárkollurnar hjálpuðu auðvitað til en hann tjáði líka með látbragði persónueinkenni hverrar konu fyrir sig. Við þetta sýndi hann ótrúlega fimi og snör viðbrögð, stundum hafði hann engan tíma til að leika af því hvað hann hafði mikið að gera. Það gerðist þó oftar að hann sýndi ótrúlega djúp og áhrifarík viðbrögð við því sem var að gerast í kringum hann og var senuþjófur jafnvel þótt hann steinþegði meðan aðrir léku á fullu. Þeir Þröstur og Jörundur voru oftar kunnuglegir í sínum leik þótt þeir gerðu vel.

Inn í þennan heim sem hefur verið nánast harðlokaður í fimmtán ár eða lengur ráfar ung kona, Hayley (Dóra Jóhannsdóttir). Hún vinnur á kassa í stórmarkaði og vill skila poka með vörum sem Sean gleymdi í búðinni fyrr um daginn. Við komu hennar fannst mér leikritið stækka og eflast á alla vegu, verða reyndar smám saman verulega óþægilegt og háskalegt. Bæði var það snilldarleik Dóru að þakka en líka því að við komu manneskju að utan inn í þetta staðnaða fúla andrúmsloft á 15. hæðinni yddast allar aðstæður og andstæður. Verkið í verkinu fær nýjan tilgang og þótt það hafi “gengið” í mörg ár verður allt í einu óljóst hvernig það muni enda . . .

Írar eiga víðfræg leikskáld þessi árin – og hafa reyndar átt nokkur öflugustu leikskáld heims í heila öld. Það væri sjálfsagt hægt að skrifa heila ritröð um ástæður þess en meginskýringin held ég sé sú að í írsku samfélagi fer saman sterk munnleg frásagnarhefð og dramatísk skapgerð þegnanna. Þegar fólk lendir í klandri og kann að segja frá því og tala um það er von á góðu. Sem minnir mig á að þýðing Heiðars Sumarliðasonar er frumleg og skemmtileg, hann nær skýrum mun á “bókmáli” feðganna í leiknum í leiknum og talmáli þeirra utan hans.

 

Silja Aðalsteinsdóttir