Nýr leikhópur, Venjulegt íslenskt fólk, frumsýndi sína fyrstu sýningu, Takk fyrir mig, í Iðnó á mánudagskvöldið. Ég sá sýninguna í gær en næsta sýning er ekki fyrr en 27. febrúar. Leikararnir eru allir að ljúka leiklistarnámi í Danmörku en fengu að taka praktíkina hér heima, enda er líklegt að framtíð þeirra sé hér á landi. Þau báðu Adolf Smára Unnarsson rithöfund (og áhugaleikara) um að skrifa fyrir sig leiktexta, Matthías Tryggva Haraldsson að leikstýra og Friðrik Margrétar að semja tónlist og allir gegndu kalli.

Eins og nafnið á leikhópnum bendir til vilja aðstandendur skoða „venjulegt íslenskt fólk“ – ef það skyldi nú vera til. Þegar gengið er í salinn situr Vilhelm Neto við borð fyrir neðan sviðið og starir svolítið efins og angistarfullur á áhorfendur streyma inn, eins og hann hafi eiginlega ekki átt von á okkur. Honum léttir þegar hin fjögur, Fjölnir Gíslason, Hildur Ýr Jónsdóttir, Júlíana Liborius og Friðrik píanóleikari ganga inn á sviðið fyrir ofan hann og búa sig undir söng. Lagið kom á óvart, þau syngja nefnilega „Íslenskuljóðið“ sem líka gengur undir nafninu „Mjólkursamsölulagið“. Þetta er elskulegur texti Þórarins Eldjárn um íslenskuna, sunginn undir lagi Atla Heimis við „Snert hörpu mína“, en flutningur hópsins var fjarri því að vera hátíðlegur. Hann var í samræmi við einn af þráðum sýningarinnar sem var að skopast að landanum, hugmyndum hans um sjálfan sig um umhverfi sitt, enda koma aðstandendur að utan og sjá okkur með augum gestsins.

Raunar er erfitt að tala um þræði því verkið er brotakennt. Við fengum sögur, söngva og sjálfslýsingar, allt í bland, og bæði höfundur og leikstjóri höfðu gert sitt besta til að allir leikararnir fengju að spreyta sig á kröfuhörðu verkefni, sýna kátínu, harm og reiði. Fyrstu söguna og þá minnisstæðustu segir Hildur Ýr af reynslu sinni af lélegum kærasta og grimmilegri hefnd sinni á honum. Flottur var líka söngur Júlíönu um afstöðu landans til túrista og innflytjenda, og aumkunarverð týpan hans Vilhelms sem sá líf sitt mótað af hverri listgreininni á fætur annarri, bókum, bíómyndum, tónlist … Öll þessi þrjú, Hildur Ýr, Júlíana og Vilhelm, eru mér minnisstæð úr frábærum uppsetningum Stúdentaleikhússins fyrir nokkrum árum, sýningum eins og Stundarfriði, Öskufalli og MIG. Fjölni þekkti ég ekki fyrir en hann náði góðum takti við félaga sína.

Þau gerðu sig fyrirferðarmikil á leiksviðinu og gólfinu fyrir framan það í Iðnó, fjórmenningarnir, léku ýkt og stundum groddalega. Það gat verið dálítið erfitt að átta sig á tilganginum með fyrirgangi þeirra en eftirbragðið er gott. Þetta var í heildina fjörug og skemmtileg sýning og það verður fengur að þeim öllum á leiksviðum heimsins.

-Silja Aðalsteinsdóttir