Sædýrasafnið eftir Marie Darrieussecq var heimsfrumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi undir stjórn franska leikstjórans Arthurs Nauzyciel og í þýðingu Sjóns. Margt varð til að byggja upp spennu fyrir þessa sýningu. Það var samið sérstaklega fyrir íslenska Þjóðleikhúsið (soldið 2007, að vísu) og sýningin fer héðan – með sínum íslensku leikurum – til Orleans í Frakklandi í vor. Að henni koma margir álitlegir listamenn. Marie þekki ég bara af skáldsögunni Gyltingu, sem er alveg nóg, það er afar minnisstæð saga, vönduð, ögrandi og óþægileg. Í heimalandi sínu er hún talin meðal eftirtektarverðustu yngri höfunda. Auk ofannefndra snillinga gerir Barði Jóhannsson tónlistina við verkið og sviðshreyfingar sjá Erna Ómarsdóttir og Damien Jalet um. Damien tók sjálfur eftirtektarverðustu “danssporin” í sýningunni í hlutverki Bellu, sem er ein af skepnunum á sædýrasafninu. Síðast en ekki síst er myndin af Margréti Vilhjálmsdóttur á auglýsingum fyrir sýninguna undurfalleg og óhugnanleg í senn. Rauða hárið dansar frá höfðinu eins og á hafmeyju í kafi og í fanginu heldur hún á kolkrabba.

SædýrasafniðSviðsmynd Giulio Lichtner er í samræmi við auglýsinguna, minnir á sjávarbotn eða annað framandi svæði. Enda erum við stödd í sædýrasafni í ótilgreindu landi sem hjónin Karl (Stefán Hallur Stefánsson) og Mæja (Margrét Vilhjálmsdóttir) reka. Það hefur verið þeirra yndi og lifibrauð í senn en nú hallar undan fæti; dýrunum hefur fækkað verulega og gestir koma ekki lengur til að skoða heldur éta því í heiminum umhverfis er matur orðinn af skornum skammti. Nú hafa hjónin samþykkt að taka á móti fjögurra manna fjölskyldu, kunningjum sínum úr skóla, um óákveðinn tíma, flóttafólki en undan hverju eða hverjum er ekki ljóst. Þetta eru hjónin Lísa, (Elva Ósk Ólafsdóttir) og Villi (Björn Hlynur Haraldsson) og tólf ára tvíburar þeirra (Ívar Örn Sverrisson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir). Fer kurteislega á með heimamönnum og gestum framan af en spennan er fljót að byggjast upp. Kannski voru Lísa og Mæja engar vinkonur í æsku, kannski eru þau bara afætur sem hrifsa til sín allt sem þau girnast. Það er ekkert einfalt og ljóst í þessu verki – ekki frekar en í næsta verki á undan þessu í Kassanum, hinu rómaða Utan gátta eftir Sigurð Pálsson. Við fáum ekki að vita margt en skynjum bara ógn sem að steðjar að lífinu á sviðinu.

Sýningin bregst ekki vonum. Á áþreifanlegu plani sýnir hún frábæra list, vekjandi texti lifnar í skemmtilegum og flottum leik í spennandi listrænu umhverfi. Sumar sviðsmyndirnar verða lengi í minnum hafðar, ekki síst súrrealískar senurnar með tvíburunum, kærleiksríkur en hamslaus leikur Mæju og Bellu og spennuþrungið atriði milli Mæju og hermannsins (Valur Freyr Einarsson). Óáþreifanleg er tilfinningin sem sýningin vekur með vísunum sínum í ótal áttir og atburði, stríð hér og þar, náttúruhamfarir, efnahagshrun. Persónur verksins vita ekkert hvað er að gerast fyrir utan sædýrasafnið. Að það er skelfilegt bera hljóðin að utan og ofan með sér. Á einstaklingsplani skynjum við sorg og heimilisböl. Hvað varð um barnið sem hermaðurinn segir Mæju hafa gengið með síðast þegar hann kom? Hvers konar dýr er Bella og hvaða samband er milli hennar og Mæju? Sýningin vekur líka spurningar um framtíðina utan leikhússins. Við búum jú í eins konar “sædýrasafni” sem hefur verið okkar matarkista um aldir. Nú fer fiskunum fækkandi, í raunveruleikanum eins og í verkinu. Hvað verður um þetta fólk? Okkur?

 

Silja Aðalsteinsdóttir