Litla skrímslið og stóra skrímsliðBörnin fengu sína jólasýningu í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu í gærdag, Litla skrímslið og stóra skrímslið. Verkið er unnið upp úr bókum Áslaugar Jónsdóttur og félaga hennar Kalle Güettler frá Svíþjóð og Rakelar Helmsdal frá Færeyjum um þessar persónur, textann sér Áslaug um og sömuleiðis leikmyndina en búningana gerði Ásdís Guðný Guðmundsdóttir. Þórhallur Sigurðsson stýrir sýningunni.

Bækurnar um skrímslið eru orðnar sex en líklega er sú fyrsta ennþá frægust, Nei! sagði litla skrímslið. Það er líka þar sem sýningin hefst. Stóra skrímslið bankar upp á en litla skrímslið er afar tregt til að opna vegna þess að stóra skrímslið eyðileggur alltaf allt með frekju og yfirgangi. En stóra skrímslið lætur sig ekki og lýkur svo að það lofar hreinlega ÖLLU til að komast inn í hlýjuna til litla skrímslisins. Þessi hluti leikritsins höfðaði rækilega til ungra áheyrenda, var bæði skemmtilegur og boðskapurinn ákaflega hollur: Að láta ekki vaða yfir sig heldur æfa sig í að segja NEI þegar illa er með mann farið.

Það dofnaði svolítið yfir sýningunni þegar stóra skrímslið var komið inn og búið að fá kaffi og köku og þeir félagar fóru að horfa á sjónvarp og sinna öðrum dæmigerðum inniverkum, þá varð kliðurinn smám saman talsverður í salnum. En um leið og vart varð við ófreskjuna á þakinu datt allt í dúnalogn og ungu eyrun sperrtust.

Ég þekkti Friðrik Friðriksson undir eins í hlutverki litla skrímslisins þótt gervið væri þétt en ég áttaði mig alls ekki á því hver feldi sig bak við stóra nefið á stóra skrímslinu. Það reyndist vera Baldur Trausti Hreinsson og er skemmst frá því að segja að þeir félagar voru rosalega fínir báðir tveir.

Þegar ég spurði félaga minn á fjórða ári hvernig honum hefði fundist sýningin var hann ekki í nokkrum vafa: „Frábær,“ tilkynnti hann.

Silja Aðalsteinsdóttir