Birtíngur eftir franska heimspekinginn Voltaire (útg. 1759) er eitt frægasta verk franskra bókmennta og við vorum svo heppin hér á landi að Halldór Laxness eyddi tólf dögum af lífi sínu árið 1945 í að snara henni. Þýðingin ber þessum vinnuhraða nokkurt vitni en sennilega græðir verkið fremur en það tapar á hraðanum. Það er eitthvert dásamlegt kæringarleysi yfir frásögninni á íslensku sem skilar sér prýðilega í nýrri leikgerð Árna Kristjánssonar. Hana sviðsetur hann nú sjálfur með Kvennaskólanemum í húsnæði skólans við Þingholtsstræti á vegum leikfélagsins Fúríu.

FúríaUnglingurinn Birtíngur hefur verið alinn upp í fögrum kastala greifans til Tundertentronk í Vestfalíu en þegar hann fremur þá synd að kyssa greifadótturina Kúnígúnd á munninn er hann rekinn með skömm út úr þeim Edensgarði. Hann ann Kúnígúnd hugástum og þó að hann flakki um hálfan heiminn á næstu árum gleymir hann henni ekki og kvænist henni að lokum þó að hún sé hvorki ung né falleg lengur þegar þau hittast á ný. Ástin er á yfirborðinu rauði þráðurinn í sögunni en tilgangur höfundar með verkinu var heimspekilegur. Kennari Birtíngs á greifasetrinu, doktor Altúnga, aðhyllist þá skoðun að allt sé eins og það á að vera í heiminum og allt miðist til hins besta í þessum allra besta heimi. Í stuttu máli má segja að Voltaire sýni fram á það í verki sínu að þessi kenning doktorsins sé bull því Birtíngur sér á ferðum sínum ótalmargt óhugnanlegt og ljótt sem sannarlega mætti fara betur. Niðurstaða hans að lokum er sú að gæfan sé undir hverjum og einum komin og maður verði að rækta garðinn sinn.

Eins og jafnan er á skólasýningum þarf ekki að spara fólk og það kemur sér vel í þessu verki. Á þvælingi Birtíngs um heimins höf og lönd hittir hann fjölda manns og sýningin var viðburðarík, hröð og skemmtileg. Textinn er mikill og laxnesskur, þótt stöku sinnum bregði fyrir tilsvörum sem hefðu ekki getað komið fyrir árið 1945. (Þær viðbætur hefði þýðandinn örugglega kunnað vel að meta enda eru þær alveg í anda hans.) Aðdáunarvert var hvað krakkarnir fóru margir vel og áheyrilega með textann. Þar var fremstur meðal jafningja Kolbeinn sá sem leikur Birtíng sjálfan (það eru engin eftirnöfn í leikskrá). Hann er firnavel valinn í hlutverkið, einlægur, djarfmannlegur og glaður í fasi eins og við á og tekur öllu með barnslegri undrun sem er bæði fyndin og hjartnæm. Næst honum kemur kellíngin sem Embla leikur. Hún fór svo léttilega með sinn langa texta að það var greinilegt að hún skildi hann út í hörgul – sem ekki er sjálfsagt mál. Marga fleiri má nefna, Andrés og Agnar í hlutverkum Altúngu og Smátúngu, Kristrúnu, Tamar og Þórdísi sem allar léku Kúnígúnd á ýmsum stigum, Sólon sem lék Martein og Kormák í ýmsum hlutverkum. Sérstakar móttökur áhorfenda í gær fékk Jeronimo sem leikur Kakambus, þjón Birtíngs frá Perú, hann mun vera skiptinemi við skólann og var tilvalinn í hlutverkið.

Hópurinn telur alls átján leikara og fjöldasenurnar runnu vel. Margar lausnir voru snjallar, til dæmis hvernig við fengum að sjá tímann líða í algeru tilbreytingarleysi í Eldóradó svo að Birtíngi fer að leiðast sæluríkið meira og meira. Sviðið var búið til með mislitum plastpokum sem gegndu ótal ólíkum hlutverkum, m.a. gátu þeir falið hópinn svo rækilega að manni brá þegar pokarnir lifnuðu við og hópurinn birtist óvænt.

Hermóður og Háðvör sýndu Birtíng fyrir margt löngu í Hafnarfirði, minnilega frábæra sýningu. Þessi uppfærsla Fúríu sýnir að þetta verk má ekki gleymast.

Silja Aðalsteinsdóttir