Ljóti andarunginn - Leikhópurinn LottaVið Arnmundur og Aðalsteinn fórum í Elliðaárdalinn í gær – öðru nafni Ævintýraskóginn – til að hitta Ljóta andarungann og fleiri ævintýrapersónur í nýjasta stykki Leikhópsins Lottu. Veðrið var himneskt og gleðin sönn hjá ungum og öldnum. Gamla ævintýrið hans Hans Christians Andersen um svanaunga sem fæðist í andahreiðri gefur tækifæri til að ræða ýmis mál sem brenna á fólki á öllum aldri, ekki síst börnum.

Steggur (Sigsteinn Sigurbergsson) og Kolla (Þórunn Lárusdóttir) eiga von á þrem ungum og bíða spennt. Það er þó öllum öðrum en þeim ljóst að eggin í hreiðrinu eru ólík að stærð og lögun. Minni eggin klekjast út og úr þeim koma æði hressir gulir ungar, týpískt elsta barn (Andrea Ösp Karlsdóttir) og týpískt annað barn sem líkir eftir elsta barni í einu og öllu (Stefán Benedikt Vilhelmsson). Biðin verður drjúg uns þriðja eggið klekst út en öllum til furðu skríður úr því algrár og óttalega klossaður ungi (Sumarliði V. Snæland Ingimarsson), móður sinni og systkinum til lítillar gleði. Andapabbi er sá eini sem sýnir þessu örverpi hlýju og það er alls ekki nóg því systkinin gulu fá gnótt tækifæra til að hrekkja og meiða litla bróður.

Ljóti andarunginn hrekst að heiman og hittir á ferðum sínum ýmsar persónur sem segja honum sögu sína og hann kemst að því að hann er ekki sá eini sem á bágt. Til dæmis á stúlkan Öskubuska (Helga Ragnarsdóttir) þessar ömurlegu stjúpsystur sem hrella hana ýmislega en Öskubuska nær sér niðri á þeim með því að vera fegurst á ballinu og heilla prinsinn. Hann kynnist líka kiðlingnum litla sem eldri systkinin vildu ekki hafa með sér en bjargaði þeim öllum úr maga úlfsins þótt hann væri yngstur í hópnum. Prinsessan á bauninni á ekkert sérstaklega gott að vera svona viðkvæm í kroppnum en lætur það ekki á sig fá og meira að segja skjaldbakan hefur betur en hérinn í kapphlaupi af því hún er þolinmóð og snjöll. (Leikhópurinn skipti þessum hlutverkum bróðurlega á milli sín.) Örlög þessara persóna verða litla unganum hollar lexíur og hann snýr aftur heim – og þá verður hin mikla umbreyting. Því það er alveg áreiðanlegt að „ekki sakar þann að vera fæddur í andagarði sem í svanseggi hefur legið“.

Anna Bergljót Thorarensen, höfundur texta og leikstjóri, blandar ekki saman ævintýrum að þessu sinni, eins og Leikhópurinn Lotta hefur gert stundum áður með prýðilegum árangri, heldur fær hvert ævintýri að njóta sín út af fyrir sig. Með því móti gefst tækifæri til að endurtaka boðskapinn nokkrum sinnum: Ekki gefast upp þótt móti blási, það kemur að því að þú færð að njóta þín. Alvaran var líka meiri í þessu verki en oft áður, ekki eins mikið sakleysislegt sprell og fjör því sprellinu fylgdi að þessu sinni stríðni og jafnvel ofbeldi. En þetta er hollur boðskapur sem börn ná vel.

Leikhópurinn Lotta er sjálfum sér nógur. Sigsteinn hannaði litríkt og skemmtilegt sviðið með hópnum, Helga semur lögin í sýningunni ásamt Rósu Ásgeirsdóttur og Andrea Ösp bjó til brúður sem glöddu bæði geð og auga. Allur hópurinn syngur og leikur af fjöri og list en ég má til með að nefna að Þórunn Lárusdóttir er dýrmæt viðbót við hópinn, svo einstök leikkona og söngkona sem hún er. Búninga hannaði Kristína R. Berman og þeir eru allmiklu fleiri en leikararnir sem skiptu oftar um föt en tölu verði komið á. Alltaf kemur á óvart hvað þau eru snögg að því og sumir búningarnir voru líka hreinasta snilld, til dæmis svanahamurinn og ljóti kjóllinn hennar Öskubusku sem við einn hringsnúning breyttist í dýrindis ballkjól!

P.S. Ég þarf að biðjast afsökunar. Ég sá það í dómi nöfnu minnar í Mogga um sýninguna að við vorum ekki sammála um einn leikarann og það kom í ljós við athugun að hún þekkti hópinn betur en ég (eða sér betur?). Raunin var sú að Andrea Ösp lék alls ekki í sýningunni en hennar hlutverk lék höfundurinn og leikstjórinn, Anna Bergljót, að þessu sinni af því að Andrea var í sumarfríi.

-Silja Aðalsteinsdóttir