Ég sá ekki nægilega vel yfir salinn í Kassanum í gærkvöldi til að vita hvort allir réttu upp hönd þegar Oddur Júlíusson hlémælir spurði hverjir hefðu einhvern tíma haft peningaáhyggjur. Sennilega allir sem tóku þátt í leik hans af fullri hreinskilni. Við burðumst öll með peningaáhyggjur, sumir stundum, aðrir oft, nokkrir alltaf. Og hvernig stendur á því? Eigum við ekki að njóta okkar skamma tíma hér á jörð? Og það gerum við ekki með því að eignast meira og meira vegna þess að því meira sem við eignumst því minna virði verður það. Virði hlutanna minnkar í réttu hlutfalli við magn þeirra. Það verður skýrast í eldræðu Mána (Stefán Hallur Stefánsson) um gullið í leikriti Jonasar Hassen Khemiri ≈ [Um það bil] sem frumsýnt var í Kassa Þjóðleikhússins í gær undir stjórn Unu Þorleifsdóttur.

[Um það bil]Þetta er sérkennilegt leikrit og margslungið. Það segir sögur af nokkrum manneskjum sem tengjast ýmist mikið eða lítið, það brýtur allar hefðir leikhússins, rýfur fjórða vegginn og breytist í uppistand við og við. En það er dillandi skemmtilegt og ögrandi og sýnir vel hæfileika þessa unga sænska leikskálds sem er í óða önn að leggja undir sig heiminn um þessar mundir. Jonas er líka heppinn með aðstandendur á Íslandi, þýðing Eiríks Arnar Norðdahl er frjó og fyndin, leikstjórn Unu er nákvæm og markviss og leikmynd Evu Signýjar Berger er kapítuli út af fyrir sig. Hún er flísalagður kassi í hólf og gólf og svo „heil“ að ég sá ekki í fyrstu að leikarar hefðu nokkrar inn- og útgönguleiðir. Það var rangt. Flísaveggirnir létu undan þrýstingi nánast hvar sem ýtt var á þá! Ekki skildi ég heldur neon-áletranirnar á bakveggnum – nema Nasdaq sem maður kannast við frá árunum fyrir hrun. Hinar reyndust líka tengjast hagvísindum.

Enda er þetta verk um peninga. Um græðgi. Um það hvernig líf okkar og hugsanir snúast um peninga. Það á jafnt við um heimilislausa útigangsmanninn Pétur (Þröstur Leó Gunnarsson), Freyju sem hefur misst vinnuna (Guðrún Gísladóttir) og hefnir sín á þeirri sem var ráðin í staðinn, afgreiðslustúlkuna Margréti (Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir) sem dreymir um sjálfbæran sveitabúskap – og þá ekki síður hennar innri mann (Katrín Halldóra Sigurðardóttir), stundakennarann Mána (Stefán Hallur) og bræðurna Andrej (Snorri Engilbertsson) og Ivan (Oddur Júlíusson). Þetta er alveg eðlilegt, segjum við, allir þurfa að hafa í sig og á, þak yfir höfuðið, mat að borða.

Já, ansar Jonas, en af hverju þarf allt lífið að snúast um það? Af hverju höfum við búið til samfélög þar sem allt gengur út á peninga? Þar sem peningar stjórna okkur af hörku. Þar sem við gerum „allt“ fyrir peninga. Þar sem við notum hugvit okkar til að stela (ljóst og leynt) frá öðru fólki í stað þess að gefa af okkur, deila með öðrum, búa til samfélag þar sem gullið er svo verðlaust að við notum það til að kýtta upp í rifurnar í gólfinu. Þetta virðast fremur algengar pælingar þegar svona er sagt frá þeim, en hér eru þær settar fram á óvæntan, einstaklega fjörlegan en stundum býsna stuðandi hátt.

Margrétarnar tvær voru rosalega skemmtilega valdar saman, Þorbjörg Helga lítil og grönn „mús“ en hennar innra sjálf stór, glæsileg, ákveðin og þóttafull Katrín Halldóra, því þannig sér Margrét sig auðvitað. Snorri minnir í útliti talsvert á höfund leikritsins, samkvæmt ljósmynd af honum í leikskrá, og er vel valinn í hlutverk Andrej sem er af innflytjandaættum og geldur fyrir það í sænska fyrirmyndarsamfélaginu. Þröstur Leó var í senn óþolandi og brjóstumkennanlegur í hlutverki betlarans, Guðrún eiginlega óþekkjanleg – og óhugnanleg – sem Freyja en allt önnur manngerð sem móðir Andrej og Ivans. Oddur var eins og kameljón í sínum ólíku hlutverkum, sem fjölmargir kaupendur happaþrenna hjá Margréti í sjoppunni, starfsmaður vinnumiðlunarinnar og hinn óvænti hlémælir. Bestur var þó Stefán Hallur í hlutverki Mána stundakennara, sambýlismanns Margrétar. Máni skilur hvað er að og langar til að breyta kerfinu – en háskólasamfélagið tekur ekki tilboði hans um að stuðla að því. Þess vegna örvæntir Máni.

Leikritið ≈ [Ungefär lika med] var frumsýnt í Stokkhólmi í fyrra og hefur notið mikilla vinsælda en líka vakið deilur. Það er lofsvert af Þjóðleikhúsinu að leyfa okkur að sjá það svona fljótt og óskandi að við fáum að sjá fleiri verk eftir þennan frumlega og fyndna Svía.

Silja Aðalsteinsdóttir