Krökkunum í Menntaskólanum í Kópavogi tókst merkilega vel að koma áhorfendum í Miðjarðarhafsstemningu í gærkvöldi þegar þau léku og sungu síðustu sýningu á Mamma mia! þó að fátt gæti minnt minna á gríska smáeyju en berangurslegt sviðið í húsnæði Leikfélags Kópavogs. Litleysi umhverfisins bættu þau upp með litríkum búningum, vel spilaðri músík, fjörugum söng og svo auðvitað æsku og yndi.
Sagan segir frá Donnu (Jenna Katrín Kristjánsdóttir) sem rekur hótelnefnu á grískri eyju og er í óða önn að undirbúa brúðkaup dóttur sinnar Sophie (María) og kærastans Sky (Hörður Bent Víðisson). Donna hefur aldrei sagt Sophie hver faðir hennar er en Sophie er úrræðagóð stúlka og hefur komist að því að móðir hennar var í slagtogi með þrem ungum mönnum sumarið sem hún kom undir, Sam (Aron Daði Þórisson), Bill (Einar Hagerup) og Harry (Hulda Hvönn Kristinsdóttir, snilldarbragð að hafa stelpu í þessu hlutverki). Sophie hefur uppi á þeim öllum og býður þeim í brúðkaupið sitt, algerlega í trássi við mömmu sína. Þangað koma líka vinkonur Donnu, Tanya (Róshildur Björnsdóttir) og Rose (Dagbjört Rós Jónsdóttir) og það verður gríðarlegt fjör sem endar með allt öðru brúðkaupi en til stóð.
Það er vissulega djarft að setja upp heimsfrægan söngleik á þessu pínulitla sviði. Allir hafa séð bíómyndina með sínum stórleikurum og öllu sem við á að éta, hafi og strönd, litlu sjarmerandi þorpi og fjölda innfæddra. En það getur auðvitað líka verið kostur, þá á fólk auðveldara með að búa til í huganum það sem ekki er fyrir hendi, setja leikarana inn í rétt umhverfi eins og dúkkulísur á málaðan bakgrunn. Allavega voru þrengslin furðu lítið truflandi í gærkvöldi. Leikgleðin var allsráðandi og ABBA-lögin sem söngleikurinn er spunninn utan um eru náttúrlega mörg algerlega heillandi. Mest mæddi á Maríu í hlutverki Sophie og hún stóðst raunina með prýði, hefur fallega rödd og ágætan framburð þó að ekki væri hægt að heyra alla söngtextana hjá henni frekar en öðrum.
Ekki er nefnt í leikskrá hver þýddi verkið en því var hvíslað að mér að það hefði leikstjórinn, Kolbrún Björt Sigfúsdóttir, gert með hjálp þátttakenda. Söngtextarnir eru enginn tímamótakveðskapur en gaman hefði samt verið að heyra þá betur vegna þess að í þeim er mestöll merking verksins fólgin. Til dæmis var engin leið að heyra orð af textanum sem Donna syngur til dóttur sinnar þegar þær eru að búa hana í brúðarskart. Raunar heyrðust aldrei orðaskil í söng Donnu sem er miður af því hlutverk hennar er það stórt, hún bjagaði málhljóðin undarlega og jafnvel lögin líka þó að röddin væri góð. Langskýrmæltust var Tanya í sínum frábæra söng til unga barþjónsins (Does your mother know that you‘re out?) en Sam var líka ansi hreint góður í tregasöngvum sínum til Donnu.
Ekki er þess getið í leikskrá hver samdi dansana en þeir voru smekklegir og krakkarnir réðu auðvitað prýðilega við að hreyfa sig eins og músíkin krafðist. Einn fór raunar langt fram úr henni. Manni varð ekki um sel þegar Sky tók heljarstökk og lenti svona eins og þrjátíu sentimetra frá manni! Það er auðvitað frábært þegar leikstjórar bera gæfu til að nýta sérgáfur einstaklinga – Vesturport ætti að kíkja á þann dreng.