KyrrjaUng hvítklædd stúlka liggur á hvítum börum. Í kringum hana er allt hvítt, veggirnir klæddir hvítum tjöldum, gólfið þakið hvítu efni, jafnvel fólkið sem situr í kring er klætt í hvíta kyrtla. Umgjörðin um dansverkið “Kyrrju” sem Ragnheiður Bjarnarson samdi og dansar sjálf á Norðurpólnum þessa dagana er bæði fögur og áhrifarík.

Upp úr dauðaþögn hefst rödd úr fremur vondum græjum sem byrjar að segja okkur ævintýri: Einu sinni var björn og býfluga … Alvaran víkur nokkuð þegar næsti kafli hefst á orðunum tvisvar sinnum var og svo kemur þrisvar sinnum var og svo framvegis (líklega upp í sex sinnum þó að það heyrðist illa) uns röddin segir aftur einu sinni var og bætir við: prinsessa. Í sömu mund byrjar stúlkan á líkbörunum að hreyfa sig og hávær og nokkuð einhæf en sefjandi tónlist hljómar. Stúlkan er ekki dáin – svaf hún bara?

Sofandi prinsessur leiða hugann að Þyrnirósu og Mjallhvíti, þessum einkennilegu ævintýrum um stúlkur sem annað hvort stinga sig á snælduteini og sofa í hundrað ár eða eta eitrað epli og sofa óeðlilega lengi. Báðar vakna þær við aðdáun karlmanns. Hvað er svona heillandi við sofandi kvenfólk, mætti spyrja, en auðvitað segir sálfræðin okkur að þetta sé tákn fyrir sakleysi, reynsluleysi: Stúlkur “sofa” þangað til karlmenn kyssa þær, þá “vakna” þær til nýs lífs, fullorðinslífs.

En það kemur enginn karlmaður til Ragnheiðar. Hjálparlaust reynir hún að komast á fætur og það gengur afar illa. Við hljótum að skilja að það er erfitt að hafa sofið lengi og eiga að standa í fæturna. Kannski hefur líka verið eitrað fyrir hana, altént minna eplin sjö sem hún raðar á bríkina hjá sér og borðar á dvergana sjö þannig að hún er fremur Mjallhvít en Þyrnirós. Svo fer að hún hættir að falla um koll í sífellu og tekst að dansa sjálfstæðan dans. En ekki er líf hennar lukkulegt þrátt fyrir það, á verkinu er þunglyndislegur bragur. Er höfundur kannski að segja að sjálfstæði hafi ekki gert konur hamingjusamar?

Það er mikill metnaður lagður í þennan gjörning. Hjördís Árnadóttir tók þátt í hugsmíðinni með Ragnheiði, Snæbjörn Brynjarson samdi skemmtilegan inngangstextann og frumsamin tónsmíðin er eftir Jóhann Friðgeir Jóhannsson en Stefán Benedikt hannaði lýsinguna. Það er mikill kostur fyrir ungt skapandi fólk að fá vettvang eins og Norðurpólinn fyrir tilraunastarfsemi sína og listsköpun og óskandi að hann dafni.

Silja Aðalsteinsdóttir