True LoveSviðslistahátíðin ArtFart er hafin þótt ekki fari mikið fyrir henni í hinum venjulegu miðlum. Kannski finnst öllum sjálfsagt að Netið sjái um að kynna og auglýsa slíkt nú á dögum – enda eru það ábyggilega bara risaeðlur sem ekki eru á Facebook. Hátíðin er haldin á mörgum stöðum í bænum og stendur til 22. ágústs (sjá www.artfart.is). Fyrsta sýningin sem ég sá var í hádeginu í dag í Íslensku óperunni og heitir True Love.

Einleikurinn um sanna ást er saminn og fluttur af Önnu Maríu Tómasdóttur, nánast hjálparlaust. Hún situr fyrir aftan áhorfendur sína, klædd í efnismikinn og glæsilegan hvítan brúðarkjól, og segir þeim á látlausan hátt ástarsögu lífs síns. Þau sáust nokkrum sinnum, hún og draumaprinsinn, áður en þau kynntust og hvert skipti er henni afar minnisstætt eins og hún lýsir fjálglega. Kynnin dýpka svo og þróast uns hann biður hennar á sérstaklega rómantískan hátt. Þau gifta sig og fara að búa saman – en þá skjóta erfiðleikarnir upp kollinum.

True Love er hliðstætt verk við Sellófan Bjarkar Jakobsdóttur og minnir líka á Hellisbúann og Pabbann eftir Bjarna Hauk Þórsson að því leyti að hér er fjallað um samband kynjanna á persónulegan hátt í einleik. En að ýmsu leyti sker verk Önnu Maríu sig úr. Miklu máli skiptir til dæmis hve einlæg hún er í frásögn og flutningi, þótt það komi hreint ekki í veg fyrir að sýningin verði fyndin. Svo notar hún skírskotanir í amerískar bíómyndir alveg listilega vel og vinsæl ástarlög sem hún syngur á hernaðarlega mikilvægum stöðum. Hún ber piltinn sinn saman við hetjur hvíta tjaldsins eins og Brad Pitt (hann er í rauninni ótrúlega líkur honum, bara venjulegri) og stórar stundir í lífi þeirra saman eru alveg sambærilegar við Hollywoodkvikmyndir – bara betri!

En lífið reynist ekki Hollywoodkvikmynd. Það þarf að klæða sig úr draumnum og koma til veruleikans. Sá er boðskapur verksins, og við vonum að persónunni hennar Önnu Maríu takist það.
Þetta er svakalega skemmtileg sýning, vel saminn texti fluttur á hjartnæman hátt, og tvíræða blikið í auganu er algerlega falið. Þó er það þarna.

Silja Aðalsteinsdóttir