MIGNú hefur Stúdentaleikhúsið hreiðrað um sig í nýju leikhúsrými að Strandgötu 75 í Hafnarfirði, ekki langt frá Gaflaraleikhúsinu. Þarna var bílaverkstæði en krakkarnir hafa aldeilis tekið til hendinni. Allt er hvítskúrað, snyrtilega málað, teppalagt og búið skemmtilegu samsafni af húsgögnum og leikmunum úr bílskúrum foreldranna. Þar frumsýndu þau svo í gær leikverkið MIG eftir sjálf sig undir stjórn Ástbjargar Rutar Jónsdóttur og það verður enginn svikinn sem leitar uppi bílaverkstæðið og hlustar á hvað hópurinn hefur að segja.

Í leikskrá eru myndir af öllum leikurunum átján og Friðriki tónlistarstjóra og tónhöfundar. Einn myndflötur er auður nema hvað þar stendur: „Þín mynd hér“. Þetta þýðir þó ekki að áhorfandinn verði beinn þátttakandi í sýningunni (nema þá að örlitlu leyti) heldur er það vísbending um að hann sé líka innifalinn í titlinum: Þetta verk er líka um MIG.

Ekki leit þetta vel út til að byrja með. Við erum stödd í afmæli Ingu (þau leika undir eigin nafni) og það hefur þegar fengið heitið „afmæli aldarinnar“. Samt er þetta alveg hundleiðinlegt partý þar sem engum dettur neitt í hug að segja. Þögnin var yfirþyrmandi – og það svona í blábyrjun leiksýningar! En engum hefði dottið leiðindi í hug sem hefði séð myndirnar sem þau póstuðu á Instagram úr „afmæli aldarinnar“. Þar voru allir í ofsa stuði, drekkandi, æpandi og kelandi. Ergo: Maðurinn lifir á myndum en ekki í veruleikanum nú til dags.

Eftir þetta rak hver sketsan aðra sem allar voru hörð ádeila á nútímasamfélag, oft líka beisk, jafnvel nöturleg (eins og viðbrögðin á samfélagsmiðlum við einlægri játningu Hildar Ýrar) en mörg líka fyndin, jafnvel hryllilega fyndin (eins og eftirlit með fitu ungbarna og samanburður Íslands og Noregs). Umræður smábarnanna um eilífðarmálin voru alveg dásamlegar og sérstaklega gaman var að nokkrum innskotum um stofnanalausnir á ýmsum vandamálum sem nafna mín, Silja Rós, söng um. Þessi ungmenni vita nákvæmlega hvað þau langar til að segja og það sem meira er: þau segja það alveg ótrúlega vel. Textinn er beinskeyttur, vel orðaður, vel framsettur og fluttur svo að ekki fer orð framhjá manni. Þau syngja líka og rappa af gríðarlegri orku og rapptextinn er eins og hann á að vera, þar ríma til dæmis „femínistar“ við „soðin ýsa“ og „Laxness“ við „what a mess“, þau eru „væn, græn, mega fæn“ og „einræn krútt við hnattrænt tjútt“!

Kjarni hópsins er orðinn öflugur leikhópur sem treystandi er fyrir hverju sem er. Þar eru kunnugleg andlit Adolfs Smára, Andrésar Péturs, Bjarkar Guðmundsdóttur, Hildar Ýrar og Vilhelms Þórs Neto. Auk þeirra og annarra ofannefndra gerðu sig sérlega gildandi í þessari sýningu þau Kristín Ólafsdóttir, Arnar Geir, Daníel Takefusa, Elías Bjartur og Hjördís Jóhannsdóttir. Allur á hópurinn skilið ærlegt lof í lófa.

Silja Aðalsteinsdóttir