JólaflækjaAllir kannast við það að senda barn til að ná í eitthvað og bíða svo von úr viti af því barnið finnur eitthvað allt annað til að gera og gleymir sér gersamlega. Stundum er þetta prýðileg leið til að fá stundarfrið fyrir barninu án þess að það gruni að maður sé að reyna að losna við það!

Einar einsetukarl í sýningunni hans Bergs Þórs Ingólfssonar, Jólaflækju, sem var frumsýnd á Litla sviði Borgarleikhússins í dag, fer upp á háaloft á aðfangadag til að ná í jólaskrautið. Þangað kominn steingleymir hann sér við að skoða fjársjóði liðinna ára sem hafa endað þarna uppi, alls konar fatnað og efni í dulbúninga, geislasverð, gamla gyllta borinn hans afa, ferðatöskur með ýmsu góssi í, píanó og svo auðvitað endalausar flækjur af jólaskrauti. Þegar hann er að rogast með kassann með jólaskrautinu yfir loftið rekur hann eitt hornið óvart í lausa stigann í loftlúgunni og fellir hann. Þar með er Einar fastur á loftinu og miklar líkur á því að þar muni hann eyða aðfangadagskvöldi og jólanótt – nema hann beiti snilld sinni til að gera sér undankomuleið …

Jólaflækja er eingetið barn Bergs Þórs, hann er höfundur, leikstjóri og leikari sýningarinnar. Og mikið hefur hann skemmt sér vel við sköpunina! Að vísu hefur hann með sér ljósa- og hljóðhönnuðinn Garðar Borgþórsson og leikmynda- og búningahönnuðinn Móeiði Helgadóttur en þau hafa fremur virkað sem ljósmæður en mæður, hygg ég. Bæði leystu þó verkefni sín listilega af hendi, einkum var sviðsmyndin heillandi fyrir unga áhorfendur. Hver myndi ekki vilja festast uppi á svona lofti einn dag eða svo?

Einar segir sjálfur ekki neitt þarna á loftinu. Meira að segja getur hann af vissum ástæðum ekki ansað þegar maður kemur að leita að honum og kallar á hann af neðri hæðinni. Hann tjáir sig eingöngu með látbragði. En til að leiða okkur áfram í sögunni hefur höfundurinn sögumann á bandi sem spjallar við Einar og áhorfendur um það sem er að gerast. Það kemur ágætlega út þó að oft væru upplýsingarnar óþarfar, látbragðið sagði þá allt sem segja þurfti.

Þetta er ljúf jólaskemmtun fyrir börn og vini þeirra.

Silja Aðalsteinsdóttir