Kannski var það kvefið – en ég held að ég hafi aldrei skælt eins mikið á leiksýningu og í gærkvöldi. Það var Flóð á litla svið Borgarleikhússins sem hafði þessi áhrif, heimildaverkið um snjóflóðið á Flateyri fyrir rétt rúmum tuttugu árum, eftir Björn Thors og Hrafnhildi Hagalín sem Björn leikstýrir.

Flóð

Samt var umbúnaðurinn einfaldur hjá Snorra Frey Hilmarssyni leikmyndahönnuði og Birni Bergsteini Guðmundssyni ljósameistara. Tvö vinnuborð á búkkum, margir tómir pappakassar, nokkrir leslampar, örfáar lúnar bækur, ljósmyndir, sýningartjald og myndvarpi, plastpoki af einföldustu gerð sem bjó til mynd fjallsins – og ógnvaldinn Skollahvilft – á tjaldinu. Það voru frásagnirnar sem nístu, teknar orðrétt úr viðtölum Björns og Hrafnhildar við fólkið sem lifði flóðið. Sumir sögðu frá fyrirboðum – draumum, viðvörunarorðum sem ekki var hlustað á, aðrir höfðu vaknað við hávaðann – hljóðheimur Garðars Borgþórssonar var hrikalega magnaður þegar við átti – og farið út um miðja nótt til að reyna að hjálpa – bjarga. Enn aðrir sögðu af reynslu sinni af að vakna í miðjum ósköpunum, undir fargi af snjó sem varð að klakahellu um leið. Skondin var sagan af konunni sem hafði af óskiljanlegri ástæðu náð í snjógalla mannsins síns út í geymslu og lagt hann hjá símanum kvöldið fyrir flóðið. Þar lá hann tilbúinn þegar maðurinn óð út í kafaldshríðina um nóttina. Nöturleg var sagan af unglingnum sem fannst eftir marga klukkutíma undir farginu en missti föður sinn og bróður. Og stúlkunni sem heyrði umganginn fyrir ofan sig og sá hvernig snjóhellan þynntist og þynntist yfir andlitinu svo birtan náði í gegn – en svo hvarf manneskjan frá … Eða litlu stúlkunni sem var bara tveggja og hálfs og man ekkert en finnur til óendanlegs tómleika þegar hún er einsömul – eins og allt hafi horfið og hún sé yfirgefin af öllum.

Allar þessar sögur sem snerta mann svo djúpt. Þau verða svo ótrúlega skýr viðbrögðin sem mannfólkinu eru eðlileg þegar svona gerist, lífsbjargarhvötin sterka, styrkurinn, dugnaðurinn – og hvernig það áttar sig svo smám saman á því að þetta er hryllingur sem ekki er hægt að horfast í augu við. Ólýsanlegur hryllingur sem enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum en við megum ekki gleyma þegar hann hefur gerst.

Þau voru hvert öðru áhrifameira í flutningi sínum, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Jensson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Kristbjörg Kjeld sem setti mann á svo innilega einlægan hátt inn í minningar kvennanna sem höfðu beðið í frystihúsinu og tekið á móti hröktum íbúum og örþreyttum björgunarmönnum. Það er freistandi að segja að þessi sýning sé ekki fyrir viðkvæma en ég held að það sé ekki rétt. Við höfum öll þörf fyrir að finna til þeirrar ríku samkenndar sem sýningin vekur með manni og láta minna okkur á að landið okkar sem gefur svo mikið, það tekur líka.

Silja Aðalsteinsdóttir