Þrettándakvöld

Þrettándakvöld er eitt alskemmtilegasta leikrit Vilhjálms Shakespeare, hryllilega fyndið og fyndnin þar að auki af mörgum tegundum. Þar ber erótíska fyndni hæst en líka er meinleg fyndni áberandi, misskilningsfyndni, kynusli eins og hann gerist fyndnastur hjá þessum yndislega höfundi og svona mætti lengi halda áfram að telja. Þetta verk hefur maður séð í mörgum uppsetningum og er ein sú minnisstæðasta sýning Leiklistarskólans þegar Ólafía Hrönn var í honum og lék Ólivíu og Þórdís Arnljótsdóttir var hennar Víóla. Ógleymanlega vandræðalegt ástarsamband þar sem Ólivía heldur endilega að Víóla sé sá karlmaður sem hún þykist vera og verður heiftarlega skotin í henni. En Víóla er dauðskotin í Orsínó greifa sem hún sendist fyrir til að biðja Ólivíu fyrir hans hönd …

Já, söguþráðurinn er alger steypa, ef svo má segja um þráð. Shakespeare hefur skemmt sér konunglega við að finna upp hverja delluna á fætur annarri til að skemmta sínu fólki, bæði á sviði og í sal. Og það var mikið tilhlökkunarefni að sjá hvað Rafael Bianciotto, leiklistarnemum og fáeinum af bestu leikurum Þjóðleikhússins yrði úr því. Hættulegt tilhlökkunarefni eftir þá dýrindis skemmtun sem Dauðasyndirnar urðu í meðförum Bianciotto í Borgarleikhúsinu í fyrra. Það voru líka mörg frábær atriði í Þrettándakvöldi á föstudagskvöldið var – sem bar upp á 13. dag marsmánaðar og var því eins konar “þrettándakvöld”. Svið Helgu I. Stefánsdóttur með sínum gríðarmikla blævæng var verulega smart og búningarnir líka þótt þeir yrðu kannski helst til einhæfir. Grímurnar voru sniðugar en ég fékk á tilfinninguna að þær hindruðu eðlilegt tal ungu leikaranna. Framsögn þeirra vildi verða ansi þvinguð en kannski stafaði það líka af óvananum að leika fyrir svo stóran sal. Það er vitaskuld áreynsla og afar brýnt að þau fái þessa þjálfun áður en þau útskrifast.

En munurinn á þeim og “gömlu” leikurunum var ansi mikill. Arnar Jónsson naut sín í botn sem sá seinheppni Malvólíó, bryti Ólivíu, sem er svo óvinsæll meðal heimilismanna að þeir gera honum viðurstyggilegan grikk. Eggert Þorleifsson var ótrúlega fyndinn Andrés Agahlýr, forsmáður biðill Ólivíu, Guðrún Snæfríður Gísladóttir frábært fífl og Ragnheiður Steindórsdóttir óþekkjanleg í hinni rassmiklu Maríu, ráðskonu Ólivíu. Það var áberandi hvað þau höfðu lítið fyrir hlutunum í samanburði við krakkana sem þó gerðu mörg vel, einkum þau sem ekki þurftu að reyna of mikið á röddina. Það er gríðarlega erfitt að leika í tveggja tíma sýningu með breyttri rödd og hefði kannski ekki átt að reyna það?

Af ungliðunum varð ég hrifnust af Lilju Nótt Þórarinsdóttur í hlutverki Ólivíu. Hún hefur mjög fallegar hreyfingar og skildist vel. Erfitt er að telja ekki næstan Walter G. Grímsson sem var eins og sambland af Stjána bláa og tuskudúkku í hlutverki Antóníós. Vigdís Másdóttir var líka aðdáunarverð í upphafi sýningar, svo afslöppuð og fyndin þegar hún lék sér að leikhúsgestum. Önnur voru helst til þvinguð en eiga eflaust eftir að ná sér vel á strik ef sýningin fær að lifa. Og mest um vert er að þetta verður þeim öllum ómetanleg reynsla.

 

Silja Aðalsteinsdóttir