MærþöllÆvintýraóperan Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur – bæði texti og tónlist – var frumsýnd í Gamla bíói í gærkvöldi. Ég hef áður séð nokkrar gamanóperur Þórunnar, byggðar á þjóðararfinum, og þær hafa allar verið eftirminnilega skemmtilegar, textinn vel ortur og fyndinn og tónlistin vel samin og aðlaðandi í klassískum og þjóðlegum stíl án þess kannski að verða verulega grípandi.

Mærþallar saga, ævintýrið um hertogadótturina sem grét gulltárum, er í safni Jóns Árnasonar. Mærþöll á það sameiginlegt með Þyrnirós að í skírnarveisluna hennar koma álfkonur sem gefa henni dýrmætar gjafir. En ein þeirra móðgast og bætir þeirri bölvun við frómar óskir systra sinna að þegar Mærþöll hafi fengið sinn prins muni hún taka hamskiptum til hins verra. Í ævintýrinu breytist hún í fugl en Þórunn lætur hana verða forljóta í framan. Þá er mikið komið undir snarræði vina og vandamanna stúlkunnar til að ævintýrið geti fengið sinn góða endi.

Óperan hefst á því að Ásta hertogaynja (Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir) ráfar grátandi um skóginn og syngur harmsöng um barnleysi þeirra hertogans (Eyjólfur Eyjólfsson). Að henni koma tvær álfkonur, Björt (Heiðdís Hanna Sigurðardóttir) og Eyjalín (Erla Dóra Vogler) sem finnst þetta ekkert mál. Þær kenna henni ráð sem hún fylgir og fæðir í fyllingu tímans dótturina Mærþöll (Björk Níelsdóttir). Í skírnarveislunni mæla álfkonurnar tvær svo fyrir að stúlkan verði algerlega töfrandi í alla staði og gráti meira að segja gulli í vatns stað, en þá grípur Una systir þeirra (Lilja Guðmundsdóttir) fram í og teflir sínu trompi fram gegn þeirra. Líður svo tíminn, telpan vex úr grasi og allt rætist sem Björt og Eyjalín spáðu. En þegar Pétur prins (Gunnlaugur Bjarnason) mætir á átján ára afmælisdaginn hennar rætist líka illspá Unu.

Mærþöll

 

Inn í þennan meginþráð fléttast ástarsaga Helgu (Halldóra Ósk Helgadóttir) og Vigfúsar kúsks (Ólafur Freyr Birkisson); hún er dóttir Gríms féhirðis (Bjarni Thor Kristinsson) sem finnst kúskur ekki nógu gott mannsefni handa dóttur sinni. Sjálfur heillast Grímur af Unu álfkonu sem vill ekki sjá hann lengi vel. Í höllinni er líka vinnukonan Halla (Hanna Dóra Sturludóttir) sem er býsna heimarík miðað við stöðu sína. Þessir aukaþræðir eru allir kómískir og þar eð söngvararnir voru ekki síðri leikarar en söngvarar varð þeim mikið úr glensinu.

Söngurinn skipti þó meira máli og hann var verulega góður. Björk skín í titilhlutverkinu og varð ekki skotaskuld úr því að túlka átján ára ungmey. Ég varð hrifin af henni í Þögninni í Tjarnarbíó á dögunum og enn heillar hún með sinni áreynslulausu sópranrödd. Þórgunni Önnu sá ég síðast í óperunni Music and the Brain; hér fær hún alls ólíkt hlutverk og mun stærra (alla vega í minningunni) og nýtur sín alveg sérstaklega vel. Hún er glæsileg á sviði og svipmikil og röddin þéttur og hljómmikill mezzó-sópran. Heiðdís Hanna og Erla Dóra voru dásamlegar álfkonur, hressar og svolítið ósvífnar, en Lilja toppaði þær alveg með sínum flottu næturdrottningartöktum!

Karlarnir voru ekki síðri. Eyjólfur skemmtilega klaufskur hertogi, Bjarni Thor ráðsmannslegur og Ólafur Freyr mátulega kjarklaus og þústaður í hlutverki hins vonlitla biðils. Gunnlaugur reyndist svo ráða jafn vel við rómantíska elskhugann og rugludallinn undir álögum Unu.

Mærþöll

Eva Björg Harðardóttir sá bæði um leikmynd og búninga og þarf að hæla henni sérstaklega fyrir búninga álfkvennanna sem voru alveg ævintýralegir. Bjarni Thor leikstýrði sýningunni en meðleik annaðist átta manna kammersveit, konsertmeistari var Hildigunnur Halldórsdóttir og stjórnandi Guðni Franzson.

Það er afskaplega gaman að fá að sjá nýjar íslenskar óperur svona hverja á fætur annarri og ekki síðra að rifja upp kynnin af Gamla bíói sem óperuhúsi, það gladdi marga í gærkvöldi. Þess má geta að næstu sýningar eru 4., 8. og 11. september.

Silja Aðalsteinsdóttir