Í Kvikunni í Grindavík vakna tveir karlar í hrundu húsi, Stefnir (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og Jón (Víðir Guðmundsson). Þeir vita varla hvað hefur skeð. Var þetta jarðskjálfti? Eða hvað? Þeir eru hungraðir en það er engan mat að fá. Loks finnur Stefnir poka með nokkrum sneiðum af Samsölubrauði og laumast til að maula eina en Jón tekur eftir því og verður æfur. Það verður að hafa reglu á hlutunum og þá reglu vill hann setja sjálfur. Brauðið tekur hann í sína vörslu og ætlar að útdeila því á skynsamlegan hátt. Þegar Stefnir bendir á að það gæti skemmst svarar Jón því til að það skemmist þá samkvæmt reglunum.

Endalok alheimsinsÞetta er upphaf leiksins Endalok alheimsins eftir Berg Þór Ingólfsson og Guðmund S. Brynjólfsson sem Grindvíska atvinnuleikhúsið (GRAL) frumsýndi fyrir viku undir stjórn Bergs Þórs. Við erum sem sagt stödd við nýtt upphaf eftir algert hrun og Jón telur sig þess undir eins umkominn að taka stjórnina yfir þeim tveim mönnum sem eftir eru í heiminum. Þegar tvö bætast í hópinn, Freyja (Sólveig Guðmundsdóttir) og Elvar (Benedikt Karl Gröndal), gerir hann sig líklegan til að stjórna þeim sömuleiðis. Elvar lætur alveg þokkalega að stjórn en Freyja er erfiðari. Þrátt fyrir pæjulegan klæðnaðinn (hún var í partýi þegar heimurinn fórst) sér hún strax í gegnum Jón og reynist hafa munninn fyrir neðan nefið þegar hann beitir ýmsum lúalegum brögðum til að brjóta hana niður. Það er ekki fyrr en hann fær „afl þeirra hluta sem gera skal” sem hún lætur sig líka.

Leikurinn var góður, einkum var gaman að sjá hvað Sveini varð mikill matur úr Stefni og það er rosalega gaman að horfa á Sólveigu í hlutverki Freyju. Ekki síst þegar maður hugsar til Dóra Maack í Uppnámi. Þau minna ekki beint hvort á annað Freyja og Dóri en eiga þó heima í sama lipra líkamanum.

Það er eðlilegt að skapandi höfundar hafi áhuga á því nú um stundir að skoða viðbrögð fólks við hastarlegum umskiptum og verk þeirra félaga er ágæt viðbót við hrunverkin sem hlaðast upp hjá okkur. Ég var svolítið efins um eintölin þar sem persónurnar opinbera alvarleg atvik úr fortíð sinni sem eiga væntanlega að varpa ljósi á þau sem persónur. Eitt er að leikrænna hefði verið að fá þær upplýsingar í samtölum, vinna þær inn í framvinduna – það er soldið einfalt að afgreiða þær svona. Annað er að mér er til efs að maður hugsi mikið um fortíðina þegar komið er að endalokum alheimsins, þegar ekkert er til að éta, ekkert almennilegt skjól fyrir veðri og vindum og engin framtíð. En auðvitað VEIT ég ekki um hvað maður hugsar þá.

Eva Vala Guðjónsdóttir gerir leikmynd og búninga sem heppnast verulega vel og ljós og hrikaleg óhljóð eru markvisst notuð til að auka á óhugnað og lengja tímann. Hljóðin urðu þó helst til einhæf þegar fram í sótti.

Silja Aðalsteinsdóttir