Í gærkvöldi var á stóra sviði Þjóðleikhússins gestasýning frá Stefan Żeromski leikhúsinu í Kielce í Póllandi í tilefni af pólskri menningarhátíð. Þau sýndu leikritið Wiosenna bujność traw (Gróskuna í grasinu) sem byggt er á bíómyndinni Splendor in the Grass (1961) eftir Elia Kazan en leikskáldið William Inge skrifaði handritið. Bíómyndin segir söguna í einfaldri tímaröð (ef ég man rétt) en leikstjórinn Michał Siegoczyński og hans lið gefur söguþræðinum svo duglega á kjaftinn að framan af þurfti ég að hafa mig alla við að raða atburðarásinni upp um leið og ég fylgdist með leikurunum á sviðinu og las skjátextana!

En sagan er einföld og nokkuð fyrirsjáanleg, ekki síst þegar maður man eins vel eftir bíómyndinni sextíu árum seinna og raunin var. Jude (Wiktoria Wolańska) og Paul (Kuba Golla) kynnast á menntaskólaballi og verða heiftarlega ástfangin. Um skeið njóta þau ástar sinnar en smám saman verður þeim margt til mæðu. Paul er af vellauðugu fólki sem finnst fráleitt að hann haldi sig við þessa almúgastelpu. Einkum er það faðir hans (Wojciech Niemczyk) sem herjar á soninn – harður maður, enda langbarinn í uppeldinu af sínum eigin föður (Przemysław Chojęta). Jude á fyrir sitt leyti uppstökka og þrasgjarna móður (Ewelina Gronowska) sem er með það á heilanum að hún megi ekki láta Paul „spilla“ sér. Upprunalega verkið gerist á þriðja áratugnum í Bandaríkjunum þar sem kynlíf fyrir giftingu er auðvitað fordæmt sem ein af stóru syndunum og það má ímynda sér að pólskt leikhús sé hér að skjóta á yfirborðs siðsemi í sínu kaþólska landi. Það fer svo að Paul gefst upp fyrir álaginu; hann svíkur Jude og hún tekur það svo nærri sér að hún reynir að drepa sig.

Ástin fyrsta og stóra milli unglinganna verður undir; huggunin (sem Jude fer með í sýningunni) er sótt til Williams Wordsworth, í ljóðabálkinn „Intimations of Immortality“ þar sem segir: „Though nothing can bring back the hour / Of splendor in the grass, glory in the flower / We will grieve not; rather find / Strength in what remains behind.“

Þetta var kraftmikil og glæsileg sýning, tveir tímar og tuttugu mínútur án hlés, en hélt manni á tánum allan tímann með hröðum sviðsskiptingum og skiptingum milli atburða á sviði og stórum skjám. Sviðinu (Katarzyna Sankowska) var skipt í tvennt eftir endilöngu með glervegg og atburðum sem gerðust handan við glerið var varpað upp á skjá. Þetta varð svolítið tilgerðarleg klifun þegar fram í sótti en á móti kom að leikararnir voru hver öðrum betri og áhrifameiri þannig að stælarnir voru fyrirgefnir. Þar þótti mér Wiktoria Wolańska fremst meðal jafningja, ákaflega fríð stúlka og skemmtileg á sviði og maður gat þakkað skjámyndunum hvað svipbrigðin í hamingju hennar og harmi nutu sín vel. Af þeim leikurum sem ekki hafa verið nefndir vil ég nefna sérstaklega að Anna Antoniewicz, sem lék systur Pauls, stúlku sem lendir í vondum málum og verður eins og logandi víti til varnaðar fyrir Jude, var rosalega fín.

Það er ekki oft sem við fáum að sjá svona stórar og mannmargar leiksýningar frá útlöndum og því ber að fagna sérstaklega. Skjám með textum var vel komið fyrir og þaðan sem ég sat var auðvelt að lesa þá. Þetta var alveg frábær kvöldstund.

 

Silja Aðalsteinsdóttir