Herranótt MR tekur þátt í Shakespeareveislu vetrarins með uppsetningu á Draumi á Jónsmessunótt undir stjórn Gunnars Helgasonar. Sýningin er í Norðurpólnum á Seltjarnarnesi og hefur verið afar vinsæl, jafnvel svo að fólk hefur orðið frá að hverfa.
Það má tína til margt til að skýra vinsældirnar. Fyrst það að þetta er eitt alskemmtilegasta leikrit meistarans, viðburðaríkt, fyndið og ungæðislegt og hentar bæði þrautþjálfuðum atvinnumönnum og skólanemendum sem kunna að fara með texta. Annað er að leikarar í þessari uppsetningu eru svo gríðarlega margir að bara hreyknir aðstandendur þeirra myndu fylla nokkra Norðurpólssali. Síðast en ekki síst er uppsetningin hugmyndarík og eldfjörug þannig að áhorfendur fara glaðir út og segja öllum vinum sínum frá. Þannig verða margfeldisáhrifin til.
Draumurinn er í raun og veru þrjú „leikrit”. Eitt fjallar um stúlkuna Hermíu (Álfrún Perla Baldursdóttir) sem á að neyða til að giftast Demetríusi (Hrafnkell Hringur Helgason) þótt hún elski Lýsander (Árni Þór Lárusson). Hermía og Lýsander ákveða að stinga af út úr Aþenuborg og gifta sig á laun. Hermía trúir vinkonu sinni Helenu (Snædís Gígja Snorradóttir) fyrir áætluninni en Helena þegir ekki yfir leyndarmálinu því hún elskar Demetríus og vill koma sér vel við hann með því að segja honum frá. Það fer því svo að Demetríus eltir Hermíu út í skóg og Helena eltir Demetríus þannig að þau eru fjögur að þvælast um skóginn og flýja hvert undan öðru. Í skóginn fer líka iðnaðarmannaflokkur undir stjórn Spóla (Auðunn Lúthersson) sem ætlar að æfa leikrit til að sýna í brúðkaupsveislu Þesevs og Hippólýtu, höfðingja í Aþenu (Elías Bjartur Einarsson og Ragnhildur Ásta Valdimarsdóttir). Þær æfingar ganga brösuglega og við fáum að fylgjast með því okkur til mikillar skemmtunar. Loks er saga sjálfra íbúa skógarins, álfanna sem hlíta forsjá konungshjónanna Óberons og Titaníu (Adolf Smári Unnarsson og Eygló Hilmarsdóttir). Konungshjónin eru ósátt þegar við hittum þau, þau vilja bæði eiga lítinn og undurfríðan indverskan dreng (Kjartan Orri Þórsson) sem Titanía hefur tekið að sér. Hún vill ekki láta hann af hendi og Óberon hefnir sín grimmilega á henni. Eins og að líkum lætur þola álfarnir líka misvel innrás mennskra manna í ríki sitt og gera þeim ýmsar skráveifur þannig að „leikritin” blandast mjög saman þegar á líður.
Hópurinn notar þýðingu Helga Hálfdanarsonar sem kannski tókst aldrei betur upp en í þessu verki. Textinn er svo hugkvæmur og fyndinn að hann jafnast fyllilega á við frumtextann. Gunnar leikstjóri hefur unnið svo vel með leikurunum ungu í textanum að aðdáunarvert var að hlusta á þau mörg. Það er vandi að gera hvort tveggja við texta Shakespeares/Helga, leika hann OG láta hann skiljast vel, en þetta tókst mörgum á sviðinu í gær. Álfrún Perla fór feiknavel með hlutverk Hermíu, var yndisleg á að líta og skildist alveg jafnvel þegar hún var glöð og ástfangin, döpur og leið eða fokreið. Hið síðasta tókst stöllu hennar Snædísi Gígju ekki eins vel þótt hún færi að öðru leyti prýðilega með hlutverk sitt. Hún þarf að hafa leiðbeiningar leikstjórans betur í huga þegar hún verður sem æstust. Árni Þór var frábær Lýsander, drengjalegur og sakleysislega ísmeygilegur í ást sinni og strákslega illkvittinn í hatri sínu og ógeði á Hermíu þegar hann er í álögum álfanna. Álfadrottningin Eygló var firnaglæsileg og fór með textann eins og hún hefði samið hann sjálf. Álfakonungurinn Adolf Smári var svolítið stífari og áreynslukenndari en flottur á sviði. Bokki var tvískiptur í þessari uppsetningu – ég játa að ég skildi ekki alveg þá ráðstöfun, og þó að Jakob Gunnarsson og Ellert Björgvin Schram gerðu báðir vel var eins og Bokki væri ekki almennilega með í þessari sýningu. Sem er vissulega miður. Elías Bjartur og Ragnhildur Ásta voru glæsilegir höfðingjar Aþeninga. En mesta kátínu vöktu að venju iðnaðarmennirnir og leikur þeirra um Píremus og Þispu sem Spóli og Hvinur (Auðunn og Árni Beinteinn Árnason) túlkuðu fantaskemmtilega. Í þessum hópi eru áreiðanlega frábær leikaraefni, ekki síst þessir tveir síðastnefndu.
Ég gæti haldið lengi áfram að tala um þennan glæsilega ungmennahóp en læt nægja að óska honum og öðrum aðstandendum sýningarinnar innilega til hamingju.