Í gær var frumsýnt nýtt íslenskt barnaleikrit í Norðurpólnum: Kallinn sem gat kitlað sjálfan sig eftir Árna Kristjánsson leikstjóra og leikhópinn Fjöður í hatti. Þar kynnumst við doktor Flosa sem rannsakar hlátur og kitl og „litlu” frænku hans Vönju sem kann ekki að banka og er sennilega með túrett því hún dansar með mikilli sveiflu þegar minnst vonum varir. Þau frændsystkinin eru leikin af Finnboga Þorkeli Jónssyni og Tinnu Þorvalds Önnudóttur sem skemmta sér prýðilega í hlutverkunum.

Kallinn sem gat kitlað sjálfan sig Það verður fljótlega ljóst að þó að doktor Flosi stúderi hlátur og eigi raunar heilan vegg af hillum með krukkum af niðursoðnum hlátri af öllum gerðum þá getur hann ekki hlegið upphátt sjálfur. Oft er það líka þannig í veruleikanum að við leggjum einmitt stund á hluti sem eru okkur fyrirfram gersamlega óskiljanlegir! Og mætti spyrja hvers vegna maður ætti að rannsaka hluti sem eru manni ljósir frá upphafi. Vanja frænka á líka við nokkurn vanda að stríða með sínar óvæntu hreyfingar og þegar hún verður ástfangin kemur hún til frænda síns og biður hann að gera sig venjulega til að Stefán kærasti verði ekki hræddur og flýi burt. Doktorinn ræður alveg við þetta verkefni en eins og hinn fullorðni áhorfandi er fljótur að átta sig á er ekkert vit í því að breyta persónuleika Vönju. Við það að verða „venjuleg” verður hún miður sín og leiðinleg, missir allan sjarma og ástríðu. Lognast út af. Enda, hver er venjulegur? Doktorinn spyr börnin í salnum hvert af öðru: Ert þú venjuleg? Ert þú venjulegur? Og þau svara hiklaust: Nei!
Niðurstaðan er sú að enginn er „venjulegur”, við erum öll sérstök og það eigum við líka að fá að vera. Stefán er hjartanlega sammála þessu, hann vill einmitt hafa Vönju eins og hún er og alls ekki öðruvísi. Og kannski getur þá dr. Flosi leyft öðrum að heyra hláturinn sem hann hefur bælt innra með sér öll þessi ár …

Ásta Fanney Sigurðardóttir og Margrét Agnes Iversen eiga líklega heiðurinn af sviðsmyndinni sem er litrík og sniðug. En hún kom ekki að nógu miklum notum í sýningunni. Af hverju fengum við ekki að heyra hlátur upp úr nokkrum krukkum? Og hefði ekki mátt gera sér meiri mat úr öllum sniðugu tilraunaglösunum á borði vísindamannsins? En draugakisan Stjarnína gerði hörkulukku meðal barnanna sem áttu í engum vandræðum með að holdgera hana í huganum. Og þau virtust alveg ná kjarna og boðskap sýningarinnar. Fylgdarmeyjar mínar voru helst til gamlar fyrir verkið; þetta er sýning fyrir forskólabörn, en þótt eldri væru höfðu þær reglulega gaman af dr. Flosa og hláturvísindum hans.

 

Silja Aðalsteinsdóttir