Galdrakarlinn í OzFyrsta sýningin á stóra sviði Borgarleikhússins á leikárinu er ætluð börnum en ekki síður fullorðnum, enda mikil leikhúsveisla þar sem öll brögð leikhússins, forn og ný, eru nýtt undir hugmyndaríkri stjórn Bergs Þór Ingólfssonar sem einnig þýðir verkið. Þetta er gamalt verk, saga Franks Baum um Galdrakarlinn í Oz er meira en aldargömul og söngleikur Harolds Arlen og E.Y. Harburg ríflega sjötugur, en efnið er sígilt og lögin mörg hver algerir eyrnaormar þannig að ekki getur annað en farið vel þegar allir gera sitt besta.

Eins og margar góðar fantasíur hefst Galdrakarlinn í Oz í beiskum raunveruleika. Stúlkan Dóróthea (Lára Jóhanna Jónsdóttir) er munaðarlaus – eins og Harry Potter, svo tekið sé nýlegt dæmi – en ólíkt honum býr hún hjá frændfólki sem er henni ósköp gott. Emma frænka (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) og Hinrik frændi (Jóhann Sigurðarson) eru bóndahjón í Kansas, vel meinandi erfiðisfólk sem ber djúpa virðingu fyrir yfirvöldum. Þegar ríka frekjan Frenja (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) ber það upp á hundinn Tótó (tíkin Myrra), besta vin Dórótheu, að hann hafi bitið hana og kemur með uppáskrifaðan snepil frá lögreglunni um að hún megi lóga seppa, gefast hin góðu hjón upp undir eins, Dórótheu til sárra vonbrigða. Allir vinnumennirnir á bænum, Viðar (Hilmar Guðjónsson), Ástþór (Þórir Sæmundsson) og Högni (Halldór Gylfason), bregðast henni á sama hátt, en sá sem ekki bregst er Tótó sem tekst að sleppa frá Frenju og komast aftur heim.

Þá tekur ekki betra við því hroðalegur skýstrokkur liðast yfir sveitina svo að heilu húsin takast á loft, að ekki sé minnst á hænur, vagna og önnur áhöld, og hann sviptir líka Dórótheu og Tótó alla leið til ævintýralandsins Oz. Þar verður merkileg speglun á hversdagsumhverfi Dórótheu því Emma frænka birtist henni þar sem góða nornin Gilda. Frenja verður Vonda vesturnornin og vinnumennina þrjá hittir stúlkan í gervi fuglahræðunnar heilalausu, tinkarlsins hjartalausa og ljónsins huglausa. Saman halda þau fjögur á fund galdrakarslins í Oz að ábendingu Gildu til að hann geti látið drauma þeirra rætast, fengið heila í fuglahræðuna, hjarta í tinkarlinn, hugrekki handa ljóninu og hjálpað Dórótheu heim til Kansas. Á leið sinni verða þau fyrir miklum áföllum og er skemmst frá því að segja að öll verða þau sér af eigin rammleik úti um þá eiginleika sem þau þrá. Mórallinn er að þegar reynir á manneskjuna þroskast hún af sjálfri sér. Enda reynist lítið á galdrakarlinum (Laddi) að græða þegar þau finna hann loksins.

Galdrakarlinn í Oz

Sagan er skemmtilega femínísk af svo gömlu verki að vera, því stúlkan Dóróthea lætur sannarlega engan eiga hjá sér og sýnir mun meira hugmyndaflug og styrk en karlpersónurnar. Það er ekki síst hún sem elur strákana upp – og auðvitað sjálfa sig um leið. Lára Jóhanna var afskaplega sannfærandi Dóróthea, ákveðin stúlka, fríð og heillandi í framkomu. Allir aðrir leikarar unnu sín hlutverk af alúð og furðustóri barnahópurinn í Oz söng og dansaði af hjartans list. Leikmynd Snorra Freys Hilmarssonar var grá og litlaus í Kansas en litrík og skrautleg í Oz eins og við átti, búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru fleiri og margvíslegri en tölu verður komið á, sveitalegir í Kansas en Oz fékk greinilegan svip af daumaborginni Hollywood. Jóhanna Vigdís minnti meira að segja Marilyn Monroe svífandi um í hásæti sínu! Tónlistin var vel útfærð og flutt undir stjórn Kristjönu Stefánsdóttur en söngurinn sætti ekki miklum tíðindum. Dansarnir sem Katrín Ingvadóttir samdi voru fjörugir og leikhúsbrellurnar impónerandi, ekki síst notkunin á myndböndum í hvirfilbylnum og frumlegri útfærslunni á galdrakarlinum (Bragi Þór Hinriksson hannaði myndböndin). En einlægasta hrifningu barna á öllum aldri vakti þó vafalaust litla tíkin Myrra sem lék Tótó af sönnum hæfileikum og ómótstæðilegum sjarma.

Silja Aðalsteinsdóttir