Þjóðleikhúsið frumsýndi í gær á stóra sviðinu fjölskyldusöngleikinn Draumaþjófinn eftir Björk Jakobsdóttur sem byggður er á skáldsögu Gunnars Helgason með sama nafni frá 2019. Dillandi fjörug tónlistin er eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson sem er líka tónlistarstjóri en söngtextana sömdu þau sundur og saman Björk, Gunnar og Hallgrímur Helgason. Ævintýraleg leikmyndin, dularfullur, margslunginn, sannfærandi og hrífandi senuþjófur, er eftir Ilmi Stefánsdóttur. Búningarnir sem eru margir tugir, allir úthugsaðir, skrautlegir eða átakanlega litlausir eftir atvikum, eru eftir Maríu Th. Ólafsdóttur; flókin en markviss lýsingin er á vegum Björns Bergsteins Guðmundssonar og Petrs Hloušek; Lee Proud semur ótölulegan fjölda af snjöllum dönsum og öllu þessu heldur Stefán Jónsson leikstjóri í sínum stóra og styrka faðmi svo að hvergi verður hik, skarð eða hlé.

Við erum stödd í heimi Hafnarlandsrottanna og þeir fyrstu sem við hittum eru Hjassi draumasmiður (Örn Árnason) og vinur hans og aðstoðarrotta Naggeir (Þröstur Leó Gunnarsson). Atriði þeirra í bláupphafi sýningarinnar var raunar svo æðislegt að kannski sló ekkert einstakt atriði það út í sýningunni allri! Hjassi er upptekinn af því að einmitt þennan dag á hann að segja öllum litlu rottubörnunum hvað þau eiga að verða þegar þau verða stór og vandinn er að hann man ekki hvað þau heita öll. Þegar hann hittir hópinn fáum við að heyra að sumir rottuungarnir kalla hann draumaþjóf – Hjassi hefur nefnilega fyrirfram skoðanir á því hvað ungarnir eiga að verða: Þau eiga að verða það sama og foreldrarnir. Safnaraungar eiga að verða safnarar, ungar njósnara njósnarar, ungar bardagarotta bardagarottur og ungar étara verða étarar. Enginn fær að velja í steinrunnu þjóðfélagi.

Þetta finnst sumum ósanngjarnt. Safnaraungann Halald (Kjartan Darri Kristjánsson) langar til dæmis að verða njósnari og það segir hann Eyrnastórri Aðalbarni Gullfallegri Rottudís (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) þegar þau kynnast. Hún er dóttir Skögultannar foringja Hafnarlands (Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir) og langar líka til að verða njósnari þótt hlutskipti hennar sé að verða étari. Saman uppgötva þessir ólíklegu vinir að heimur þeirra sé óréttlátur og þau ákveða að breyta honum. Byltingar er þörf! Halaldur byrjar á að stytta óþolandi langt nafn vinkonu sinnar í Eyrdís og undir því nafni leggur hún í glæfraför til borgarinnar. Meðal rottanna þar kynnist hún ýmsum öðruvísi samfélagsgerðum uns hún hefur fundið þá gerð sem hún vill innleiða heima hjá sér.

Þetta er gríðarlega efnismikið verk með róttækum boðskap. Frumkommúnismi með dassi af anarkisma varð niðurstaðan eftir stuttar en gefandi umræður!

Það er vandasamt að sviðsetja verk um lítil dýr eins og rottur ef þær eiga að sjást með öðrum verum – ránfuglum, köttum, að ekki sé minnst á mannfólk, eða mannfreskjur eins og vér heitum í þessu verki. Þarna kemur til snillingurinn Charlie Tymms sem hannar hroðalega agressívan fálka, fremur hægfara kött (sem minnti börnin á jólaköttinn á Lækjartorgi) og hluta fyrir heild mannfreskjunnar  sem var hrikalegasti óvinurinn. Það var geggjað að horfa á rottugengið skjótast undan í allar áttir þegar ógnin steðjaði að!

Tónlistin lét afar vel í eyrum. Lögin eru skemmtileg og söngvæn og söngtextarnir hnyttnir og merkingarbærir. Skemmtilegast var einkennislagið sjálft, „Það er gott að vera rotta“, en fallegast var „Við verðum njósnarar“ sem ég spái löngu lífi í landinu.

Mikill fjöldi leikara, fullorðinna og barna, tekur þátt í sýningunni og væri einfaldast að setja þau öll undir einn hatt og fullyrða að leikurinn hafi verið vandaður og vel útfærður og söngurinn afbragðsgóður yfir línuna. En það er nauðsynlegt að nefna fáein nöfn. Þuríður Blær var fullkomlega heillandi Eyrdís í glæsilega gervinu sem María hafði búið henni, ákveðin, djörf og einlæg. Eyrdís er býsna ólík móður sinni því Skögultönn Steinunnar Ólínu var allt sem Eyrdís var ekki, frek, sérhlífin og fölsk. En glæsileg var hún í rauða krínólín-dressinu, og söngurinn, maður lifandi! Örn Árnason naut sín í botn sem hóglífisrottan Hjassi og Þröstur Leó var frábær sem skugginn hans. Atli Rafn var hrikalegur Ljúfur, valdaræninginn og vonda rottan, og flottur í glæsilegu gervi. Þórey Birgisdóttir var einstaklega sæt og sjarmerandi í hlutverki Pílu, veitingastaðarottunnar og kattabanans. Oddur Júlíusson var dásamlegur Gráfeldur og Almar Blær Sigurjónsson og Saadia Auður Dhour gáfu honum lítið eftir í liði veitingastaðarottanna – þær voru uppáhaldið mitt! Viktoría Sigurðardóttir söng yndislega fyrir bátarottubarnið sitt í búri Ljúfs og barnið hennar (Kolbrún Helga Friðriksdóttir / Dagur Rafn Atlason) söng sig beint inn í hjartað á manni. Rottugrímurnar voru sniðugar og ekki má gleyma skottunum! Þau voru beinlínis stórkostleg.

Svona gæti ég haldið áfram lengi, mun fleiri eru ónefndir enn. Ég verð að láta duga að segja að það er ár og dagur síðan ég grét af gleði og samhug í leikhúsi en það gerði ég í gær.

Silja Aðalsteinsdóttir