Þjóðleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi eitt skemmtilegasta leikrit í heimi, Jónsmessunæturdraum eftir William Shakespeare. Þórarinn Eldjárn þýddi leikritið fyrir þessa uppsetningu og það fær nú að heita þessu munntama nafni. Þýðing Þórarins er eins og búast mátti við, nákvæm en þó leikandi létt og dillandi fyndin. Leikstjóri er Hilmar Jónsson, Eva Signý Berger gerir leikmyndina en Karen Briem hið afar fjölbreytta búningasafn.

Fá leikrit hef ég séð oftar en þetta, því auk stóru leikhúsanna hefur Draumurinn verið vinsæl skólasýning. Raunar eru minnisstæðustu sýningarnar þrjár allar frá Nemendaleikhúsinu: sýning Stefáns Baldurssonar með leikurum LR og útskriftarnemum 1985 og sýningar útskriftarnema 1993 undir stjórn Guðjóns Pedersens og 2013 undir stjórn Stefáns Jónssonar. Allt dásamlegar sýningar, sú síðasta kannski best.

Söguþráðurinn er flókinn, enda eiginlega þrefaldur. Í uppsetningu Hilmars erum við stödd í víðáttumiklu anddyri glæsihótels í Aþenu þegar verkið hefst. Þangað er von á tignum gestum, Þeseifi hertoga (Atli Rafn Sigurðarson) og Hippólítu heitmey hans (Birgitta Birgisdóttir) sem hyggjast halda brúðkaup sitt þar á staðnum. Fyrir er þar Egeifur vinur þeirra (Pálmi Gestsson) sem er í vandræðum með dóttur sína Hermíu (Þórey Birgisdóttir). Hann vill gifta hana Demetríusi (Hákon Jóhannesson) en hún vill engan nema Lýsander (Oddur Júlíusson) sem er duglegri að heilla hana með söng og ljóðalestri. Undir líflátshótun föður síns ákveður Hermía að flýja á skóg með sínum heittelskaða og segir engum frá nema Helenu vinkonu sinni (Eygló Hilmarsdóttir). Helena freistast til að kjafta í Demetríus af því að hún er skotin í honum, hann fer á eftir Hermíu og Helena eftir honum og þau æða öll um skóginn þessa töfrum slungnu nótt, þrungin ástarþrá.

Jónsmessunæturdraumur

Úti í skógi er ekki allt kyrrt því ósætti hefur komið upp milli konungshjóna álfa, Óberons (Atli Rafn) og Títaníu (Birgitta) út af undurfögrum indverskum prinsi (Bjarni Snæbjörnsson) sem hún hefur rænt en þau vilja bæði eiga. Óberon kann blómagaldur sem lagður er á augu sofandi manns og veldur því að hann fær heiftarlega ást á þeim fyrsta sem hann sér þegar hann vaknar. Þennan galdur notar Óberon til að hrekkja ástkæra eiginkonu sína en biður brögðótta þjóninn Búkka (Guðjón Davíð Karlsson) að leggja hann líka á Demetríus svo að hann verði ásthrifinn af hinni örvæntingarfullu Helenu. En Búkki fer mannavillt og báðir piltarnir verða vitlausir í Helenu en vilja ekkert með Hermíu hafa!

Í þriðja lagi höfum við svo hótelstarfsmennina sem ætla að setja upp „þrautleiðinlegan sorgar-gamanleik“ til skemmtunar í brúðkaupi hertogans. Smiddi (Sigurður Sigurjónsson) er leikstjóri en hann á fullt í fangi með að stjórna Bossa (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) sem telur sig bestan í helst öll hlutverkin. Leikritið er skopstæling á Rómeó og Júlíu og segir frá ógæfusama parinu Pýramusi (Ólafía Hrönn) og Þispu (Bjarni). Það flækir leikæfingarnar að Búkki breytir Bossa í asna og lætur álfadrottningu sjá hann fyrstan þegar hún vaknar þannig að hún verður brjáluð af ást og girnd til hans. Allt stefnir í voðalegt óefni bæði meðal álfa og manna – en svo líður nóttin og „þá er engum öndum lengur vært“.

Jónsmessunæturdraumur er kynósa verk eins og Hilmar leggur áherslu á í sinni poppuppfærslu sem er mjög líkamleg. Þar er fátt gefið hárfínt í skyn, fólk kyssist og kjassast, bæði karlar og konur og karlar innbyrðis (og kona og asni), og þegar ungmennunum slær saman í skóginum slást stelpurnar eins og götustrákar. Það var andskoti skemmtileg sena. Sviðið er geysilega stórt og það var mikið hlaupið – sérstaklega lenti Þórey í að hlaupa í hlutverki Hermíu. Þokkafyllra held ég að væri að draga svolítið úr látunum, af því að þokki fer þessu verki svo vel.

Af ungmennunum mæddi meira á stelpunum en strákunum og þær voru alveg prýðilegar; einkum fannst mér Eygló verða mikið úr hlutverki Helenu. Hún er reyndar ekki ókunnug þessu verki því hún lék Títaníu í rómaðri uppsetningu Gunnars Helgasonar á Herranótt 2011. Oddur var sá sprækari af strákunum, Hákon var íhugulli. Atli Rafn og Birgitta voru glæsilegt par í mannheimum en ekki líkaði mér búningar þeirra konungshjóna álfa og Atla Rafni var ekki greiði gerður með þessum svakalegu skóm. Leikritið inni í leikritinu var vel mannað. Þar munaði mest um Ólafíu Hrönn sem kunni sér ekki læti í hlutverki Bossa. Bjarni var yndisleg Þispa og Edda Arnljótsdóttir sannfærandi Ljón – eða þannig. Pálmi fékk að leika vegginn milli elskendanna og gerði það með prýði. Margbrotnustu persónu verksins, Búkka, túlkaði Gói af röskleika en hefði mátt vera tvíræðari og kvikindislegri. Kannski dró úr honum sem Bokka að hann lék líka Fílóstratus veislustjóra Þeseifs en í sama gervi.

Ekki var skipt um svið þótt við færum inn í skóg en með lýsingu (Halldór Örn Óskarsson) var dregið mjög úr hótelsvipnum á því. Þó voru stiginn upp á aðra hæð og svalirnar notuð í skóginum. Kannski á þetta að segja okkur að samkvæmt titli sé það draumur sem við erum að horfa á og sé þá dreymandinn enn á hótelinu þótt umbreytt sé nokkuð. Gísli Galdur Þorgeirsson sér um tónlistina sem var stundum óvænt því persónur brutust út í kunn popplög, einkum undir lokin. Hljómsveitin var skipuð nokkrum leikaranna, Góa, Hákoni, Oddi og Ólafíu Hrönn, með þeim lék Juliette Louste sem einnig lék álf og hljómsveitarstjóri var Aron Steinn Ásbjarnarson sem lék líka Svelta hótelstarfsmann og Tunglskinið í leiknum þeirra.

Þetta er viðamikil og flott sýning og mun áreiðanlega ná vel til ungs fólks. En að mínu mati mætti draga betur fram náttúrulegan sjarma verksins, jafnvel á kostnað greddunnar. Loks vil ég nefna að þýðing Þórarins er komin út í kilju og það er æðislega gaman að lesa hana, hvort sem er fyrir eða eftir sýningu.

-Silja Aðalsteinsdóttir