Það er mótsögn í orðunum sígilt og dægurlag en þó er það svo að fátt er eins sígilt og dægurlag sem hefur lifað af. Það er ekki aðeins sígilt af því að það heldur áfram að vera vel samið, jafnvel snilldarlega gert, heldur getur það á augabragði kallað fram minningar, jafnvel um atvik sem við héldum löngu gleymd, eða flutt okkur í einu vetfangi á annan stað og í annan tíma. Þannig eru dægurlög kannski stærri þáttur í lífi okkar en við áttum okkur á og ekkert hitar okkur eins um hjartað og lag sem kippir okkur úr gráum hvunndeginum út á dansgólf og í fangið á gömlum flamma fyrir óralöngu.
Þetta veit Ólafur Haukur og nú hefur hann enn samið lítið verk utan um sígræn lög, flest íslensk og frá sjöunda áratugnum. Verkið heitir Bjart með köflum og var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Þórhalls Sigurðssonar. Það segir frá sautján ára Reykjavíkurstrák, Jakobi (Hilmir Jensson), sem er sendur í sveit vegna þess að mamma hans þarf að leita sér að vinnu erlendis. Árið er 1968, síldin hefur brugðist og djúp efnahagskreppa er í landinu. Jakob er músíkant, hann á rafmagnsgítar og kann lög og texta svo hann verður að vonum aufúsugestur í sveitinni.
Ekki fáum við að vita hverju Jakob býst við þar en hann á áreiðanlega ekki von á að lenda inni í dramatískum nágrannaerjum sem staðið hafa í áratugi og eiga að einhverju leyti upptök sín í fornum ástum sem fóru illa. Jakob er sendur að fátæka býlinu Gili þar sem búa Arnhildur (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) og Sólbjartur (Pálmi Gestsson) ásamt móður húsfreyju (Anna Kristín Arngrímsdóttir) og börnum sínum, veiðiklónni og valkyrjunni Gunnvöru (Heiða Ólafsdóttir) sem minnir mest á Sölku Völku, ofvitanum Nonna (Ævar Þór Benediktsson) og grínistunum Skarphéðni og Kára (Atli Þór Albertsson og Ólafur Egill Egilsson, algerlega óþekkjanlegur!). Þeir síðastnefndu eru á leið til Ástralíu (Ást-ralíu eins og þeir segja) í ævintýraleit þegar verkið hefst.
En Jakob er varla kominn í land úr strandferðaskipinu þegar hann verður var við að mikil úlfúð er milli nágrannabæjanna Gils og Hvamms. Á stórbýlinu Hvammi búa Kristófer (Örn Árnason) og Salóme (Edda Arnljótsdóttir) með sínum börnum, tvíburunum og lúðunum Ara og Gísla (Hannes Óli Ágústsson og Friðrik Friðriksson) og prinsessunni Auðbjörgu (Þórunn Arna Kristjánsdóttir), eftirlæti föður síns. Auðbjörg er vön að fá allt sem hún réttir út höndina eftir og um leið og hún sér Jakob vill hún eignast hann.Um það fær hún að syngja nokkur lög. Skemmtilegast fannst mér þegar sá vottur af tvíræðni sem finna má í texta Ólafs Gauks við lagið Þú og ég eftir Gunnar Þórðarson var vel nýttur í samsöng þeirra Jakobs. Auðbjörg syngur um ástina og væntanlega giftingu en Jakob þessar úrdráttarlegu setningar: “Sá dagur koma mun þegar eldri verðum við, og hvað við viljum þá er ei gott að sjá, viltu mig og vil ég þig??”
Það er einmitt málið. Auðbjörg fær keppinaut í Gunnvöru um hylli Jakobs en hætt er við að úrslit þeirrar keppni liggir fljótlega fyrir ef maður er vel lesinn í ástarþríhyrningsrómönum.
Þó að efnið sé í sjálfu sér stórt verður ekki mikið úr því í samtölum í verkinu og mætti til dæmis hugsa sér mun átakameira samtal milli Arnhildar og Kristófers sem einu sinni voru líka ung og ástfangin. Þeim Ólafíu Hrönn og Erni varð ekki mikið úr hlutverkum sínum frekar en öðrum af eldri leikurum, fyrir utan Eddu sem bjó til dásamlega smámynd af konu á röngum stað í tilverunni. Sýningin er augljóslega sett upp til að sýna unga hæfileikafólkið sem sumt kemur nú fram í fyrsta skipti í Þjóðleikhúsinu og til að laða þá að sem langar til að heyra gömlu lögin sungin og leikin – og jafnvel taka undir. Er ekki upplagt að hafa singalong sýningar á Bjart með köflum? Unga fólkið syngur líka vel, sérstaklega Heiða sem er söngstjarna sýningarinnar. Leyndarmálið hans Þóris Baldurssonar við texta Þorsteins Eggertssonar fékk nýtt líf í meðförum hennar.
Yfirleitt voru lögin vel valin ofan í flytjendur þó á því væri einstaka misbrestur. Hvers vegna syngur Nonni Dimmar rósir, til dæmis? En helsti gallinn á lagaflutningnum var rafmögnunin. Þarf virkilega að magna upp þessar fínu raddir í þessum sal sem er ekkert tiltakanlega stór? Fólk talaði saman og það heyrðist skínandi vel, svo brestur það í söng og þá kom verulega óþægilegt högg á hljóðhimnurnar, einkum fyrir hlé. Mér dettur í hug að sniðugt gæti verið að magna ekki söngvana sem fólk er að syngja heima á bæjunum – til dæmis þegar Arnhildur minnist fornra ásta og syngur um Brúðarskóna – en hafa meira við á ballinu þegar hópurinn allur syngur lög á borð við Ég elska alla sem var verulega flott atriði.